VG vildi ekki ódýrari bleiur

Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu.
Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs lögðust gegn því að virðisaukaskattur á taubleiur yrði lækkaður tímabundið barnafjölskyldum til hagsbóta og með umhverfisvernd í huga. Þetta segir Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, en hún var annar flutningsmanna tillögunnar.

„Við Birkir Jón Jónsson [varaformaður Framsóknarflokksins] lögðum fram breytingartillögu um að lagður yrði 7% virðisaukaskattur á margnota taubleiur en ekki 25,5% skattur. Þetta myndi lækka útgjöld barnafjölskyldna og jafnframt draga úr mengun af völdum einnota pappírsbleia sem eyðast upp á 500 árum. Þetta var fellt, meðal annars af Vinstri grænum. Það kom engin haldbær skýring á því,“ segir Lilja og bendir á að niðurfelling á álögum á dýra og umhverfisvæna bíla gagnist fáum.

„Það var verið að samþykkja að fella niður tímabundið virðisauka á rafbílum, vetnisbílum og tengiltvinnbílum. Þetta er skattaniðurfelling fyrir tekjuhátt fólk vegna þess að þetta eru dýrir bílar og því fáir sem munu geta nýtt sér þetta - dæmigert verð er frá 5 milljónum. Þau eru fá heimilin sem eiga fyrir nýjum bílum í dag, hvað þá á þessu verði,“ segir Lilja.

Áhrif veiðigjaldanna óljós

Lilja kvaddi sér hljóðs þegar veiðigjaldafrumvarpið var samþykkt. Hún dregur afstöðu sína til frumvarpsins saman svo:

„Ég er sammála því að nú sé tími til þess að fara í hækkun á veiðigjaldinu vegna þess að það gengur vel hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. En veiðigjaldið er íþyngjandi fyrir landsbyggðina nema stór hluti þess renni aftur til hennar.

Það voru engar tillögur frá meirihluta þingsins um að tryggja það. Auk þess lá ekki heldur fyrir úttekt á áhrifum veiðigjaldsins á byggðir, einstök sjávarútvegsfyrirtæki eða samþjöppun í sjávarútvegi. Þannig að ég treysti mér ekki á grundvelli þessa til að styðja þetta frumvarp og sat því hjá,“ segir Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert