Heildarafli íslenska flotans eykst á milli ára

Veiðar á uppsjávarfiski hafa gengið mjög vel á árinu.
Veiðar á uppsjávarfiski hafa gengið mjög vel á árinu. mbl.is/Helgi Bjarnason

Heildarafli íslenska flotans í lok þriðja ársfjórðungs fiskveiðiársins, frá 1. september til loka maí, var 1.180 þúsund tonn. Til samanburðar var aflinn á sama tíma í fyrra 858 þúsund tonn.

Ljóst er að aukningin er heilmikil, eða um 37,5%. Munurinn liggur einkum í um 306 þúsund tonna aukningu á uppsjávarafla, en botnsfiskaflinn fór t.a.m. úr 345 þúsund tonnum í fyrra í 362 þúsund tonn í ár. Aflaukningin á botnfiski í heildina er um 4,9% en á móti kemur samdráttur í  veiðum á úthafsrækju um 1.550 tonn frá sama tíma í fyrra.

Veiðar á uppsjávarfiski gengið mjög vel

Veiðar á uppsjávarfiski hafa gengið mjög vel á árinu og í maí var aflinn 306 þúsund tonnum meiri en á sama tíma í fyrra. Aflinn í íslenskri sumargotssíld og  norsk-íslenskri síld er nokkuð svipaður en þó heldur minni en í fyrra. Uppsjávarafli íslenskra skipa á fyrstu þremur ársfjórðungum fiskveiðiársins jókst um rúm 60% frá árinu í fyrra. 

10% samdráttur hefur þó orðið í afla á skel- og krabbadýrum samanborið við fyrra ár, þrátt fyrir aukinn afla í innfjarðarækju.  Í lok maí var hann komin í  10.134 tonn samanborið við 11.489 tonn í fyrra.  Athygli vekur að þrátt fyrir frjálsar veiðar, dragast veiðar á úthafsrækju saman um 26%.

Aflmarksstaðan svipuð og í fyrra

Á fyrstu níu mánuðum fiskveiðiársins nýttu aflamarksskip 86,7% af aflaheimildum sínum í þorski. Þetta þýðir að aflamarksstaðan eftir fyrstu níu mánuði fiskveiðiársins er svipuð og á sama tíma í fyrra þegar 88,2% aflaheimilda í þorski höfðu verið nýttar. Þorskafli aflamarksskipa til kvóta á þessu tímabili nam rétt rúmu 101 þúsundi tonna samanborð við tæp 92 þúsund tonn á fyrra ári. Ónýtt aflamark í þorski nemur 15.500 tonnum samanborið við 12.500 á sama tíma í fyrra.

Þegar litið er til aflamarks í ýsu við lok þriðja ársfjórðungs fiskveiðiársins, er staðan mun þrengri en í þorskinum.  Óveitt aflamark nú 5.650 tonn samanborðið við 11.700 tonn árið áður.

Krókaaflamarksbátar hafa nýtt 82% af heildaraflaheimildum sínum á fyrstu þremur ársfjórðungum fiskveiðiársins reiknað í þorskígildum, samanborið við 75,6% í fyrra. 

Ef litið er til heildaraflamarksstöðu aflamarks- og krókaaflamarksbáta, má sjá að staðan er svipuð og í fyrra, því ónotaðar aflaheimildir í lok maí námu í þorskígildum 49.915 tonnum samanborðið við 51.799 tonn í fyrra.

Fiskveiðistjórnunarlöggjöfin hefur áhrif

Í lok maí hafði 1.973 tonnum verið landað sem VS-afla samanborið við 2.244 tonn á sama tíma í fyrra, en hluti af andvirði þess afla greiðist í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Megnið af VS-aflanum var þorskur og dróst sá afli saman um 8,8% frá sama tímabili í fyrra. Rétt er að minna á að samkvæmt breytingum sem gerðar voru á fiskveiðistjórnunarlöggjöfinni sl. sumar reiknast leyfilegur VS-afli nú fyrir hvern ársfjórðung í stað fiskveiðiársins í heild og ekki er hægt að flytja heimildir í VS-afla á milli ársfjórðunga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert