Heimilt að flytja inn kindakjöt

Í fyrsta sinn verður erlent kindakjöt á boðstólum hérlendis.
Í fyrsta sinn verður erlent kindakjöt á boðstólum hérlendis. Árni Torfason

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur í fyrsta sinn auglýst og úthlutað tollkvóta til innflutnings á kinda- og geitakjöti. Úthlutunin er í samræmi við samninga Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO), en þessi kvóti hefur þó ekki verið auglýstur fyrr en nú. Innflutningurinn er á lægri tollum en almennt gerist en er ekki tollfrjáls.

Þetta kemur fram í frétt á vef Landssamtak sauðfjárbænda. Í fréttinni kemur fram að aðeins ein umsókn hafi borist og þurfti því ekki að greiða fyrir kvótann eins og er þegar fleiri eru um hituna, en samkeppni var um alla aðra tollkvóta í þessu útboði, en þennan og tollkvóta fyrir smjör.  

Það var fyrirtækið Íslenskar matvörur ehf. í Garðabæ sem fékk kvótanum úthlutað en sama fyrirtæki fékk einnig smjörkvótann auk hluta af fleiri tegundum.

Um er að ræða 50 tonn og gildir kvótinn frá júlí 2012-til júní 2013.  Það má því búast við að innflutt kinda- eða geitakjöt sjáist í verslunum hérlendis einhvern tíma á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert