Greinargerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna Icesave-málsins var svarað í dag af málsvarnarteymi íslenska ríkisins en eins og kunnugt er óskaði sambandið eftir meðalgöngu í málinu fyrir EFTA-dómstólnum fyrr á þessu ári. Með svari íslenskra stjórnvalda lýkur skriflegum hluta málflutnings í málinu en munnlegur flutningur hefst 18. september næstkomandi.
Málflutningi framkvæmdastjórnar ESB er harðlega mótmælt í svari málsvarnarteymisins. Meðal annars er bent á að Eftirlitsstofnun EFTA, sem höfðar málið gegn Íslandi, fyrir EFTA-dómstólum hafi í stefnu sinni í desember síðastliðnum byggt á því að íslenska ríkinu bæri skylda til þess að leggja innistæðutryggingasjóðnum hér á landi ef allt annað þryti. Á síðari stigum hafi bæði ESA og framkvæmdastjórnin hins vegar fjarlægst þá málsástæðu og tekið undir að engin slík skylda hvíldi á stjórnvöldum.
Minnt er á að málsmeðferðarreglur EFTA-dómstólsins geri ráð fyrir því að meðalgönguaðili gangi inn í mál eins og það liggur fyrir dómstólum til þess að styðja annan hvorn málsaðilann en það sé hins vegar ekki á valdi framkvæmdastjórnarinnar í þessu tilfelli að breyta þeim farvegi sem málið er í og til að mynda setja fram aðrar kröfur eða málsástæður en Eftirlitsstofnun EFTA, sem höfðar málið gegn Íslandi, hafi þegar gert.
Fram kemur í svari málsvarnarteymisins að íslensk stjórnvöld telji slíkan málflutning lýsa skorti á skilningi á takmörkunum innstæðutrygginga. Ekki sé nokkur leið að tryggja aðgang að fjármunum í gegnum tryggingasjóði með fjármögnun frá einkaaðilum þegar allt bankakerfið hrynji. Ekki einu sinni óheftur aðgangur að ríkissjóði dugi til við þær aðstæður. Þær takmarkanir dragi þó ekki úr gildi innstæðutrygginga en gagnsemi trygginga takmarkist þó alltaf við eignir vátryggjandans þegar tjón verði.
Óraunhæfar hugmyndir um innistæðutryggingar
Þá er því meðal annars ennfremur bent á að málflutningur framkvæmdastjórnarinnar og ESA um að innistæðutryggingakerfi sé mikilvægasta vernd neytenda og sú eina ef allt annað bregst byggi á óraunhæfum hugmyndum og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Reynslan sýni að öll ríki grípi til þeirra aðgerða sem eru þeim tiltæk til þess að bregðast við kerfislægum vanda.
Vísað er til umræðunnar um innistæðutryggingar í Evrópusambandinu og endurskoðun og meðal annars bent á að innstæðutryggingasjóðir á Spáni og Ítalíu séu samkvæmt fréttum ófærir um að ráða við þær þrengingar sem þar steðji að. Full ríkisábyrgð og fjármögnun á þessum sjóðum væri við slíkar aðstæður engan veginn raunhæf og myndi setja fjárhag þessara ríkja í fullkomna óvissu á viðkvæmum tímum.
Þá er því ennfremur mótmælt að málið fyrir EFTA-dómstólnum snúist um bankaeftirlit eða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu en framkvæmdastjórnin vísaði í hana í greinargerð sinni í því sambandi. Fram kemur í svari málsvarnarteymisins að óumdeilt sé að fullkomið bankahrun í október 2008 hafi verið meira en nokkur gat séð fyrir og er í því sambandi bent á ýmsar heimildir.
Að endingu er því mótmælt að Ísland hafi mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni. Bent er á að ekki sé lagt mikið í að rökstyðja á hvaða hátt íslenska ríkið hefði átt að halda á málum á anna hátt en það gerði eða hvernig tryggja hefði mátt óhindraðan aðgang að Icesave-reikningunum við þær aðstæður sem sköpuðust haustið 2008 þegar áhlaup hafi verið gert á reikningana, greiðslukerfi á milli Íslands og umheimsins verið í uppnámi og enginn aðgangur að erlendum gjaldeyri.