Sakborningur í morðrannsókn fær bætur

Lögregla að störfum við húsið þar sem Hannes Þór Helgason …
Lögregla að störfum við húsið þar sem Hannes Þór Helgason fannst látinn í ágúst 2010.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni 200 þúsund krónur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti í rannsókn lögreglu á morðmáli í Hafnarfirði árið 2010. Maðurinn hafði stöðu sakbornings þar til annar maður játaði á sig morðið.

Um er að ræða morðið á Hannesi Þór Helgasyni sem fannst látinn á heimili sínu í Hafnarfirði 15. ágúst 2010. Við rannsókn málsins kom í ljós að maðurinn tengdist málinu þannig að hann hefði verið unnusti sambýliskonu Hannesar til tveggja ára, á árabilinu 2007 til 2009. Hún hefði slitið sambandinu í febrúar 2009 en á grundvelli sambands þeirra eftir það var maðurinn handtekinn 18. ágúst, að því er segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Farið var inn á heimili mannsins, leitað í herbergi hans og föt tekin til rannsóknar. Lögregla taldi að blettur á buxum hans gæti verið blóð. Það reyndist ekki vera. Manninum var sleppt úr haldi að morgni 19. ágúst.

Héraðsdómur taldi aðgerðir lögreglu eðlilegar og lögmætar, ekkert óeðlilegt hefði verið við handtökuna og maðurinn ekki lengur í haldi en efni stóðu til.

Engu að síður segir í niðurstöðu dómsins: „Fyrir liggur að [maðurinn] hafði stöðu sakbornings við rannsókn málsins allt þar til játning annars manns lá fyrir um að hafa banað Hannesi Þór Helgasyni, eða til 3. september 2010. Á stefnandi því með vísan til 228. gr. [laga um meðferð sakamála] rétt á bótum úr hendi [íslenska ríkisins]. Ber því að bæta honum þann miska, sem telja má að hann hafi hlotið vegna handtöku hans og vistunar í fangaklefa, enda verður ekki litið svo á, samkvæmt gögnum málsins, að hann hafi valdið eða stuðlað að þessum aðgerðum lögreglu.“

Í umræddri lagagrein segir: „Maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli á rétt til bóta skv. 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur.“

Voru 200 þúsund krónur taldar hæfilegar miskabætur. Hins vegar var ekki fallist á að maðurinn ætti rétt til bóta á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka