Náttúruverndarsamtök Íslands telja að sá texti að lokayfirlýsingu Ríó +20 sem samþykktur var í gær sé á margan hátt ekki eins skýr og afdráttarlaus og sú málamiðlunartillaga sem gestgjafinn, Brasilía kynnti á laugardaginn var.
Samtökin telja þá að á þessu stigi sé erfitt að meta þann árangur sem náðst hefur með samþykkt texta lokayfirlýsingar Ríó +20. Minnt er á að fyrir 20 árum var niðurstaðan – þrír nýjir alþjóðlegir samningar, Dagskrá 21 og Ríó-yfirlýsingin – harkalega gagnrýnd fyrir metnaðarleysi. Hið sama gerðist þegar Johannesburg Plan of Implementation var samþykkt árið 2002. Á þessari ráðstefnu er vitnað til þessara samþykkta sem hornsteina umhverfisverndar.
Náttúruverndarsamtök Íslands segja að ekki skýrt í yfirlýsingunni sem samþykkt var í gær hvort eða hvenær skuli ráðast í gerð alþjóðlegs samnings um verndun hafsins utan 200 mílna efnahagslögsögu ríkja þótt ljóst sé að málið sé komið á dagskrá. „Mikil þörf er á slíkum samningi því þrátt fyrir að leiðtogafundurinn í Jóhannesborg árið 2002 og fundir aðildarríkja samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika, t.d. í Nagoya, hafi kallað eftir verndun hafsvæða sem eru mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni er enginn samningur til sem getur komið þeim samþykktum í verk á alþjóðlegu hafsvæði.
Mikilsverður árangur hefur náðst í kaflanum hafið er lúta að verndun hafsins, t.d. að ríki styrki ekki fiskveiðar og stuðli þannig að ofveiði (harmful subsidies). Einnig að tekið verði á ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum fiskveiðum á alþjóðlegu hafsvæði (illegal, unregulated and unreported fisheries, IUU). Ennfremur, mikill meirihluti ríkja styður gerð nýs samnings til verndar hafinu en Bandaríkin, ásamt Japan, Kanada, Rússlandi og Venezúela stóðu í vegi fyrir framgangi þess máls. Miklu skiptir nú að þjóðarleiðtogar og/eða umhverfisráðherrar þeirra ríkja sem veittu hafsmálum forustu árétti stefnu síns lands þegar þeir ávarpa ráðstefnuna.“