Theódóra Rafnsdóttir, Reykvíkingur ársins 2012, opnaði í morgun Elliðaárnar ásamt Jóni Gnarr borgarstjóra. Hún renndi maðki í Sjávarfoss og ekki var liðin mínúta þegar lax hafði tekið og landaði Theódóra á að giska sex punda hæng fimm mínútum síðar. Var þetta fyrsti laxinn sem hún veiðir.
Jón tilkynnti hver hefði verið útnefndur Reykvíkingur ársins áður en veiðin hófst við veiðihúsið í Elliðaárdal kl. 6.45. Theódóra hefur unnið mikið starf með vinnuhópi ungmenna með skerta starfsgetu, m.a. gróðursett og plantað trjám á svæðinu á milli efra og neðra Breiðholts. Þá hefur hún beitt sér fyrir því að þrífa Elliðaárdalinn og þekkir svæðið því vel.
Eftir að tölu Jóns lauk gekk Theódóra að Sjávarfossi ásamt Ásgeiri Heiðari leiðsögumanni og veiddi skömmu síðar sinn fyrsta lax, eins og fyrr segir.
Bætt við klukkan 8
Um klukkan hálf átta landaði Theódóra öðrum laxi, 6-7 punda hæng. Skömmu fyrir klukkan átta kastaði Jón Gnarr í Sjávarfoss og setti í lax á innan við mínútu. Reyndist laxinn vera um fjögur pund. Því eru þrír laxar komnir á land en vanir veiðimenn sem gengu með Elliðaánum í gærkvöldi sáu töluvert af laxi.