Tæplega 1.500 nemendur innrituðust í nám á framhaldsskólastigi haustið 2011 undir formerkjum átaksins Nám er vinnandi vegur.
Það byggist m.a. á markmiði í stefnumörkuninni Ísland 2020 um að lækka hlutfall Íslendinga á aldrinum 20-66 ára sem ekki hafa hlotið formlega framhaldsmenntun.
Nemendahópur átaksins er tvískiptur, annars vegar hópur nemenda sem innritaðist í nám samhliða því að þiggja bætur hjá Vinnumálastofnun og hins vegar hópur nemenda, sem framhaldsskólarnir innrituðu til viðbótar við hefðbundna ársnemendur og eru á aldrinum 18-24 ára. Talsvert brotthvarf varð úr nemendahópnum á haustönn eða 21,4%.
Samhliða átakinu var efld náms- og starfsráðgjöf í þeim framhaldsskólum, sem innrituðu nemendur vegna átaksins og var þessum nemendahópi fylgt eftir sérstaklega með það fyrir augum að sporna við brotthvarfi. Árangurinn hefur komið í ljós því verulega dró úr brotthvarfi meðal nemenda á vorönn og var það um 11,5%. Það hafði því lækkað um tæplega 10% og var því nánast helmingi minna en á haustönn.
Alls hafa 7,83% nemenda átaksins lokið námi sínu, en 116 nemendur brautskráðust á skólaárinu 2011-2012 ýmist af starfsnáms- eða bóknámsbrautum.
Á komandi skólaári verður áfram byggt á góðri samvinnu náms- og starfsráðgjafa, nemenda, skóla og stofnana til að styrkja og viðhalda þeim árangri, sem náðst hefur í átakinu, segir í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Sjá eldri tilkynningu um átakið