Hamingjan fylgir ekki tekjum

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra. mbl.is/Ómar

„Það vekur ugg ef fólk sem hefur það verulega gott og hefur náð að taka töluvert til sín, og hefur góða afkomu, er óhamingjusamt yfir að geta ekki haldið því nú þegar við þurfum að jafna kjörin í landinu,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra spurður út í rannsókn þar sem áhrif efnahagsþrenginga á hamingju og líðan Íslendinga eru skoðuð. Rannsóknin var í umsjón landlæknisembættisins.

Guðbjartur telur mikilvægt að fólk upplifi réttlæti og að misskipting í samfélaginu sé ekki of mikil, en það sé hluti af þeim þáttum sem máli skipta hvað varðar hamingju.

Guðbjartur, sem tók þátt í pallborðsumræðum í dag að lokinni kynningu Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðstjóra hjá landlæknisembættinu, á niðurstöðunum, segir það gott sem sé dregið fram í rannsókninni að öryggi, þar með talið efnahagslegt öryggi, skipti fólk máli. Óvissa um afkomu hafi áhrif á hamingju og hafi kannski verið vanmetinn þáttur.

„Við vitum um fjölskyldutengslin. Við vitum um það að það skiptir máli að eiga félaga og vini, hafa eitthvert hlutverk og hafa áhrif á sitt líf,“ segir Guðbjartur.

Það sé hins vegar forvitnilegt að sjá að ekki séu bein tengsl á milli hamingju og tekna, þ.e. hvort munur sé á fólki með lágar eða háar tekjur. „Heldur kemur þarna inn hópur sem telur sig vera síður hamingjusaman, jafnvel þó að hann sé með verulega háar tekjur,“ segir Guðbjartur og bætir við að það sé umhugsunarefni.

Allir leggi sitt af mörkum

Aðspurður segir Guðbjartur að jöfnuður á Íslandi hafi verið að aukast á undanförnum árum samkvæmt rannsókn Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands.

„Menn hafa svo verið að gera athugasemdir við það að það sé aðeins verið að taka niður toppana og þá haldi menn að það sé búið að auka jöfnuð. En þó að það sé ekki nema bara það þá skiptir það máli upp á það sem ég kalla sanngirni og réttlæti. Að það séu ekki ákveðnir aðilar eða lítill hópur sem geti tekið til sín mikið af verðmætum. Við verðum að deila þeim ef við ætlum að tryggja það að hér verði ekki fátækt fólk. Allir verða þó að leggja sitt af mörkum og allir verða að bera ábyrgð á sínu lífi, að svo miklu leyti sem þeir geta það.“

Þá segir Guðbjartur að á ráðherrafundum í Evrópu og á Norðurlöndum séu allir sammála um það að „misréttið sem var að aukast gríðarlega fyrir hrun sé ein mesta ógn við samfélög í heiminum í dag“.

Ekki nóg að rannsaka hagvísa

„Við eigum auðvitað að standa vaktina og fylgjast með áfram vegna þess að margt af því sem við óttuðumst við hrunið; það hefur tekist að vinna gegn því. Það er að segja börnum líður betur og það eru margar kennitölur sem hafa haldið. Heilbrigðiskerfið virkar þrátt fyrir að við höfum þurft að beita harðræði við að skera þar niður o.s.frv.“

Það sé þó eitt að komast í gegnum erfiðleika í þrjú til fjögur ár, annað sé að vita hvernig staðan og áhrifin verða til lengri tíma litið.

„Við ræðum gjarnan hagtölur en hérna erum við að ræða félagsvísa og kannski öðruvísi tölur sem þurfa að vega á móti efnahagslegri afkomu,“ segir hann.

Guðbjartur segir að það sé athyglisvert, sem kom fram í rannsókninni, að hamingjan fylgi ekki tekjum. Spurningin snúist um það hvort menn hafi búið sitt umhverfi með þeim hætti að þeir geti lifað við það sem þeir hafa. Hann segir að málið verði ekki leyst með einföldum tekjuhækkunum heldur verði menn að einblína á ákveðna hópa. „Færa til í samfélaginu, sem við höfum verið að gera, svo við höfum efni á því að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda,“ segir velferðarráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka