Umsóknum um grunnnám við Háskólann á Bifröst fjölgar um 25% á milli ára en frá árinu 2010 er aukningin 40%.
Bryndís Hlöðversdóttir rektor segir í fréttatilkynningu að það sé ánægjulegt að sjá þessa fjölgun á meðal umsækjenda í háskólanámið á Bifröst og að næsta skólaár líti vel út.
Að sögn Bryndísar var mikil gróska í starfi Bifrastar á síðasta ári: „ Við höfum tekið upp spennandi nýjungar í kennsluháttum sem skila sér vonandi í auknum gæðum og ánægðari nemendum auk þess sem við erum á kafi í að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar inn í allt okkar starf,“ en hún segir breytingarnar hafa áhrif á námsinnihaldið og að nemendur hafi tekið þessum nýju áherslum mjög vel.
Bifröst ákvað að bjóða einnig upp á HHS, eða heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði í fjarnámi frá og með haustinu, og þeirri nýbreytni var vel tekið. „Þannig að það er ýmislegt skemmtilegt að gerast og ég hlakka til að takast á við næsta skólaár á Bifröst,“ segir Bryndís í fréttatilkynningu.