Anna Kristín Ólafsdóttir telur að forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi orðið sér og embætti sínu til minnkunar með viðbrögðum sínum í málinu sem lýtur að ráðningu í embætti skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Önnu Kristínu.
„Vegna yfirlýsingar forsætisráðuneytisins um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli því sem ég höfðaði í framhaldi af úrskurði kærunefndar jafnréttismála þykir mér rétt að eftirfarandi komi fram:
Ástæða þess að ég kærði ráðningu karlmanns í embætti skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins var að ég taldi mig hæfari en hann til að gegna því starfi. Kærunefnd jafnréttismála tók undir öll sjónarmið mín og komst samhljóða að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefði látið kynferði ráða við skipun í embættið og með því brotið gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna, lögum sem hún sjálf mælti fyrir á Alþingi árið 2008. Slíkt er einsdæmi í Íslandssögunni.
Forsætisráðuneytið brást við úrskurði kærunefndar jafnréttismála með því að lítillækka mig í yfirlýsingu sem birt var í kjölfar úrskurðarins á heimasíðu stjórnarráðsins. Það er alrangt sem haldið er fram í yfirlýsingu þeirri sem forsætisráðuneytið hefur nú sent frá sér að ráðherra hafi sýnt einhvern sáttavilja í þessu máli. Hvorki fyrr né síðar hefur hún haft samband við mig vegna málsins eða komið til mín skilaboðum um vilja hennar til sátta.
Núgildandi lög um jafna stöðu karla og kvenna eru skýr. Mér þótti því eðlilegt og rétt að láta reyna á inntak laganna og höfðaði mál gegn forsætisráðherra. Héraðsdómurinn staðfestir að úrskurður kærunefndar jafnréttismála er bindandi og þar með að forsætisráðherra hafi með embættisveitingunni brotið gegn lögunum um jafna stöðu karla og kvenna. Dómurinn felst ekki á skaðabótakröfu mína þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að ég hafi átt að hljóta embættið fremur en aðrir sem voru metnir hæfari en ég af sérskipuðum ráðgjafa forsætisráðherra. Þeir þrír umsækjendur sem röðuðust framar en ég og ekki hlutu embættið voru allir konur. Það liggur því í augum uppi að forsætisráðherra braut ekki aðeins gegn mér heldur þremur öðrum konum á sama tíma.
Með dómi Héraðsdóms er forsætisráðherra lands í fyrsta sinn, svo vitað sé, dæmdur til að greiða einstaklingi miskabætur fyrir meiðandi pólitískan spuna. Viðbrögð forsætisráðuneytisins í gær voru í raun endurtekning á þeirri misbeitingu opinbers valds. Hér er augljóslega um að ræða brot á nýsettum siðareglum ráðherra. Gerð forsætisráðherra, sem einnig á að vera ráðherra jafnréttismála, í máli þessu er henni sjálfri og embættinu til minnkunar. Að lokum tel ég rétt að velta þeirri spurningu upp hver eigi að axla pólitíska ábyrgð á því stjórnsýslumisferli sem úrskurður kærunefndar jafnréttismála og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur staðfesta. Allir jafnréttissinnar bíða eftir svari Jóhönnu Sigurðardóttur, jafnréttisráðherra, um pólitíska ábyrgð,“ segir í yfirlýsingu frá Önnu Kristínu Ólafsdóttur.