Álykta um dóminn

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður og forsætisráðherra, kampakát á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar..
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður og forsætisráðherra, kampakát á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.. mbl.is/Eggert

Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar hefur sent frá sér ályktun vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2012 í máli Önnu Kristínar Ólafsdóttur vegna ráðningar skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.

„Samfylkingin hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum um árabil.

Flokkurinn hefur kennt sig við kvenfrelsi og femíniskar áherslur sem frá upphafi hafa verið undirstaða stefnumála hans. Pólitísk ábyrgð okkar jafnaðarmanna gagnvart málaflokknum og jafnréttislögunum er mikil. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra virti úrskurð kærunefndar jafnréttismála frá mars 2011. Hún hefur leitað sátta og beðist velvirðingar á þeim miska sem málið kann að hafa valdið.

Nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem lagði til grundvallar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála frá mars 2011 um að forsætisráðherra hefði gerst brotleg við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008 er alvarlegur fyrir stjórnsýslu forsætisráðuneytisins. Stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktar að draga megi þann lærdóm af málinu að málsmeðferð ráðningarferilsins hafi ekki verið nægilega vönduð.

Kvennahreyfingin telur brýnt að ráðningar falli að lögum og tryggt verði að komið sé í veg fyrir ósamræmi við gerð hæfnismats umsækjanda í stöður innan stjórnsýslunnar.

Stjórnin fagnar að með niðurstöðu Héraðsdóms hafi kærunefnd jafnréttismála fengið þann sess sem breytingar á jafnréttislögum árið 2008 ætluðu henni.

Þær breytingar voru gerðar undir forystu Samfylkingarinnar og Jóhönnu Sigurðardóttur í jafnréttismálum.

Kvennahreyfing Samfylkingarinnar telur áhuga sjálfstæðiskvenna í Reykjavík á jafnréttismálum eftirtektarverðan og hvetur Sjálfstæðisflokkinn til að setja jafnréttismál í öndvegi. Með árangur fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar á sviði jafnréttismála í huga göngum við stoltar til verkefna framtíðarinnar. Minna má á að í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa jafnréttismál verið eitt af helstu baráttumálum meirihlutans á Alþingi. Sem dæmi hafa fjárlög og efnahagsáætlanir tekið mið af ólíkri stöðu kvenna og karla, innleidd var aðgerðaáætlun gegn mansali, þarfir kvenna voru settar í öndvegi í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, kaup á vændi voru bönnuð, sett voru bindandi ákvæði í lög um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða og fram er komið frumvarp um jafnlaunastaðal í baráttunni gegn kynbundnum launamun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert