Bensínverð á hraðri niðurleið

Reuters

N1 og Orkan hafa lækkað verð á eldsneyti um tvær krónur í morgun sem þýðir að verð á eldsneyti hefur lækkað um rúmar fimm krónur það sem af er viku. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið undanfarna daga og hefur ekki verið lægra í langan tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá N1 hefur verð á á bensíni og dísilolíu lækkað um 5,20 krónur frá síðustu helgi en með lækkuninni nú hefur verð á bensíni og dísilolíu lækkað um 24,70 krónur frá því það var hæst um mánaðamótin mars apríl.

Skýring lækkunarinnar er lækkandi heimsmarkaðsverð á sl. vikum og mánuðum, en einnig koma til áhrif hagstæðrar gengisþróunar, sem þó gekk aðeins til baka í gær, samkvæmt upplýsingum frá Magnúsi Ásgeirssyni hjá N1.

Lítrinn af bensíni kostar nú 243,40 krónur hjá Orkunni og 243,70 krónur hjá N1. Lítrinn af dísil kostar 243,20 krónur hjá Orkunni og 243,50 krónur hjá N1.

Í gær kostaði tunnan af hráolíu til afhendingar í ágúst 78,20 Bandaríkjadali í New York og er það lægsta verð á hráolíu á NYMEX-markaðnum frá því í byrjun október í fyrra.

Verð á Brent Norðursjávarolíu fór niður í 89,23 dali tunnan á markaði í gærkvöldi sem er það lægsta frá því í desember árið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert