Alþjóðanáttúruverndarsamtökin (IUCN) kynntu nýja skýrslu um lífverutegundir sem eru á válista í heiminum á Ríó+20, ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, í vikunni. Af þeim 63.837 tegundum sem lagt var mat á eru 19.817 í hættu á að vera útrýmt af jörðinni.
Listinn er tekinn þannig saman að hluti af lífverum jarðar er rannsakaður til að meta ástand líffræðilegrar fjölbreytni á jörðinni. Tegundirnar eru síðan flokkaðar í átta flokka. Af þeim rúmlega 63 þúsund tegundum sem metnar voru, eru 3.947 taldar í bráðri útrýmingarhættu, 5.766 í útrýmingarhættu og 10.104 standa höllum fæti.
Þá eru 63 tegundir ekki lengur til villtar í heiminum og 801 tegund hefur endanlega verið útrýmt. Fjórar tegundir bætast við lista útdauðra tegunda að þessu sinni.
Margar lífverutegundir eru manninum lífsnauðsynlegar en þær sjá honum fyrir fæðu, atvinnu og lyfjum. Skýrslan gerir rányrkju í höfum, vötnum og ám að sérstöku umfjöllunarefni.
Í sumum heimshlutum hafa allt að 90% íbúa á strandsvæðum lífsviðurværi sitt af fiskveiðum. Þar af leiðandi hefur ofveiði rýrt suma fiskistofna um allt að 90% að því er segir í skýrslu IUCN. Þá er gengið of hart fram í veiðum í 55% kóralrifa heimsins sem 275 milljónir manna reiða sig á fyrir fæðu, vernd og lifibrauð. Í Afríku eru 27% af öllum ferskvatnsfiski á válista.
Að sögn Trausta Baldurssonar, sviðsstjóra hjá Náttúrufræðistofnun, benda allar rannsóknir til þess að tegundir eyðist mun hraðar nú en nokkru sinni áður. „Þetta er fyrst og fremst út af athöfnum mannsins. Aðalástæðurnar eru tap á búsvæðum t.d. þegar við tökum það undir byggingar, vegi eða landbúnað. Mengun, ofnýting og loftslagsbreytingar hafa veruleg áhrif og truflun af ýmiss konar ágangi,“ segir hann.
Hinar ýmsu tegundir tilheyra stærri vistkerfum og ef ákveðnir hlekkir hverfa getur það haft keðjuverkun á kerfið í heild. Brotthvarf einnar tegundar getur stuðlað að því að annarri hrakar eða blómstrar.
Ýmsar íslenskar tegundir eru á válista og nefnir Trausti örninn og fálkann sem dæmi. Haförn er á lista yfir tegundir í hættu en fálki í yfirvofandi hættu. Á árum áður skaðaist arnarstofnin þegar eitrað var fyrir refinn með því að setja út eitrað kjöt. Drápust ernirnir þegar þeir átu hræin. Nú er mesta hættan truflun og ásókn á búsvæði hans.
„Mikil ferðamennska getur haft áhrif, vegagerð hefur spillt arnarsetrum og upp geta komið árekstrar við landbúnað,“ segir Trausti sem bendir á að fjórðungur dauðra arna sem rannsakaðir hafa verið hafi högl í sér.
Til þess að vernda dýrategundir er oft ekki nóg að friða þær í einu landi. Sérstaklega á þetta við um farfugla þar sem búsvæði þeirra geti orðið fyrir skaða bæði á vetrarstöðvum og í þeim löndum þar sem þeir verpa að sögn Trausta.
„Blesgæsin var friðuð í Evrópu en var veidd á Íslandi á leið frá varpstöðvum á Grænlandi til vetrarstöðva Evrópu.
Þessari tegund hnignaði mikið á tímabili þannig að við friðuðum hana hér á Íslandi.“