Hæstiréttur klofnaði í niðurstöðu sinni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is / Hjörtur

 Ólík niðurstaða Hæstaréttar í tveimur gengislánadómum er umfjöllunarefni í skattatíðindum KPMG sem komu út í dag. Hluti þeirra dómara sem skipuðu meirihlutann í fyrri dómnum eru í minnihluta í seinni dómnum.

Í skattatíðindum er sem fyrr farið yfir það helsta í skatta- og skattatengdum málefnum. Í júní útgáfu blaðsins er m.a. fjallað um tvo áhugaverða dóma, en í þeim skorið úr ágreiningi í svokölluðum gengislánamálum. Í máli Hæstaréttar frá 7 júní 2012, dæmdu sex af sjö dómurum einnig í máli dómsins frá 7. júní 2012. Þrír af þeim fjórum sem skipuðu meirihluta í því máli, voru í minnihluta dómsins kveðnum þann 15. júní 2012.

Töldu lánið gilt

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011, dags. 7. júní 2012, var m.a. deilt um hvort lán til tveggja einstaklinga væri bundið í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum. Lánið fengu einstaklingarnir gegn útgáfu skuldabréfs. Það sem benti til þess að um skuldbindingu í íslenskum krónum væri að ræða var að höfuðstóllinn var ekki aðeins tilgreindur í þremur erlendum gjaldmiðlum, heldur einnig jafnvirðisfjárhæð í íslenskum krónum.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að um gilt lán hafi verið að ræða í erlendum myntum. Í rökstuðningi sínum lagði Hæstiréttur til grundvallar þrjú atriði. Í fyrsta lagi var heiti skuldabréfsins „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í öðru lagi var höfuðstóllinn fyrst tilgreindur í þremur erlendum gjaldmiðlum en síðan til jafnvirðis lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi voru vextir skuldabréfsins til samræmis við það að um erlent lán hafi verið að ræða.

Ágreiningur sambærilegur

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/2012, dags. 15. júní 2012, var skorið úr um hvort lán til félags til kaupa á fasteignum væri skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum sem með ólögmætum hætti væri bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Ágreiningur málsins væri í ýmsum atriðum sambærilegur þeim sem skorið var úr með dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. 

 Hæstiréttur klofnaði í niðurstöðu sinni, en meirihluti Hæstaréttar, fjórir dómarar af sjö, taldi samningana í nokkrum veigamiklum atriðum frábrugðna og um hafi verið að ræða lögmætt lán í erlendri mynt.

Hæstiréttur lagði þrjú atriði til grundvallar niðurstöðu sinni. Í fyrsta lagi var heiti lánssamningsins „Lánssamningur í erlendum myntum“ en í máli nr. 155/2011 hafði það verið „ISK 150.000.000.“ Í öðru lagi hafi skyldur samningsins verið efndar í erlendum gjaldeyri og í þriðja lagi var ákvæði um myntbreytingu orðað öðruvísi, en þar sagði að við myntbreytingu yrði „höfuðstóll lánsins umreiknaður til jafnvirðis í annarri mynt“. Í máli nr. 155/2011 sagði hins vegar að hægt væri að óska eftir því að„myntsamsetningu“ lánsins yrði breytt, þannig að „eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið.“

 Hæstiréttur klofnaði

Minnihluti Hæstaréttar var ósammála rökstuðningi meirihlutans og taldi að um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða sem væri bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Minnihlutinn benti á að höfuðstóll lánsins hafi verið tilgreindur auk þess sem fyrir lá að tilgangur lánsins var að greiða fyrir fasteignir í Reykjavík í íslenskum krónum. Önnur atriði sem bentu til þess að um erlent lán hafi verið að ræða, breyttu ekki eðli málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert