Hafa safnað yfir 3 milljónum

Keppendur lögðu mikið á sig til að komast í mark.
Keppendur lögðu mikið á sig til að komast í mark. mbl.is

„Síðasta liðið kom í mark kl. 03:10 í nótt og þetta gekk bara mjög vel. Við erum rosalega ánægð með niðurstöðuna,“ segir Margrét Tryggvadóttir, en hún er ein af skipuleggjendum hjólreiðakeppninnar  WOW cyclothon sem hófst í Reykjavík á þriðjudaginn. Keppendur lögðu mikið á sig og söfnuðu áheitum fyrir verkefnið Hreyfing og heilbrigði íslenskra barna hjá Barnaheillum.  Liðið „Piltarnir“ sigraði keppnina og komu í mark á hádegi. Liðið „Fjögur í veislu“ rak svo lestina.  

Mikill peningur safnaðist í keppninni, en yfir þrjár milljónir hafa safnast og lýkur söfnuninni eftir helgi. „Við sjáum fram á að þetta verði árlegur viðburður,“ segir Margrét, en hún hvetur fólk til að leggja sitt fram og styrkja gott málefni.

Gefa 500 hjól

Mæðrastyrksnefnd og fjölskylduhjálp munu sjá um að útdeila þeim hjólum sem söfnuðust í átakinu, en yfir 500 hjól söfnuðust í samstarfi við WOW cyclothon og Barnaheill. „Við erum búin að fá margar beiðnir um hjól og munu þau eflaust gleðja marga,“ segir Margrét, en hún vill þakka styrktaraðilum keppninnar og bætir við að án þeirra hefði þetta ekki verið hægt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert