„Illgirnin og hefndarhugurinn hjá mörgum þeirra sem tjáðu sig um mig í tengslum við þetta mál ætti að vera öllum íhugunarefni,“ segir Egill „Gillz“ Einarsson um nauðgunarkæru á hendur honum og unnustu hans sem felld var niður af ríkissaksóknara í síðustu viku.
Hann segir allar atburðalýsingar í málinu, sem birst hafi í fjölmiðlum, vera í meginatriðum rangar og stundum sé um að ræða hreinan uppspuna. Því miður hafi fjölmargir byggt afstöðu sína á grunni þessara röngu upplýsinga. Hann segist mjög ósáttur við málið og allt sem því tengist og muni hann óska eftir því við þar til bæra aðila að fá skýringar á því hvað varð til þess að málið fór jafn langt og raun ber vitni og hvers vegna það tók „þennan óratíma“ að fella það niður.
Kæra barst lögreglu í lok síðasta árs og um miðjan janúar sendi kærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hana til ríkissaksóknara. Stuttu síðar sendi ríkissaksóknari hana aftur til lögreglunnar til frekari rannsóknar. Honum barst svo kæran að nýju í lok febrúar en það var í síðustu viku, tæpum fjórum mánuðum síðar, sem ríkissaksóknari ákvað að fella hana niður.
Yfirlýsingin í heild sinni:
„Sem kunnugt er hefur ríkissaksóknari fellt niður nauðgunarkæru á hendur mér og Guðríði unnustu minni. Ég hef hingað til forðast að ræða þetta mál opinberlega, ef frá eru taldar tvær stuttar yfirlýsingar sem ég gaf út um málið þar sem ég ítrekaði sakleysi mitt. Nú, þegar mér hefur borist í hendur rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir niðurfellingu kærunnar finn ég mig nú knúinn til, vegna misvísandi viðbragða sem sjá má á internetinu, að koma eftirfarandi á framfæri:
Í fyrri yfirlýsingum mínum hélt ég því fram að nauðgunarkæran væri fráleit og ekkert í málinu benti til sektar, hvorki framburður kæranda eða vitna, né önnur gögn málsins. Í rökstuðningi ríkissaksóknara fyrir niðurfellingu málsins er framburður minn og Guðríðar um atvik sagður staðfastur og samræmist öðrum gögnum málsins og ekkert bendi til að við hefðum samræmt framburð til að fegra hlut okkar.
Hins vegar telur ríkissaksóknari að ekki verði framhjá því litið að í framburði kæranda var ekki innbyrðis samræmi í skýrslum hennar hjá lögreglu. Og heldur ekki samræmi í því sem haft var eftir henni á Neyðarmóttöku strax í kjölfar hins meinta brots og þess sem hún skýrði frá hjá lögreglu.
Þá kemur fram í rökstuðningi ríkissaksóknara að engin réttarlæknisfræðileg gögn sýni fram á að brotið hafi verið kynferðislega á meintum brotaþola í umrætt sinn.
Síðan eru mörg önnur atriði, sem ríkissaksóknari tekur ekki fram í rökstuðningi sínum fyrir niðurfellingunni, sem benda ótvírætt til þess að kæran sé ekki á rökum reist.
Hingað til hafa allar atburðalýsingar í þessu ömurlega máli, sem birst hafa í fjölmiðlum, einkum DV, komið frá „stuðningsmönnum“ stúlkunnar sem kærði okkur. Þessar atburðalýsingar eru í meginatriðum rangar og stundum hreinn uppspuni, eins og til dæmis sú fullyrðing að stúlkan hafi þurft að gangast undir læknisaðgerð eftir samskipti mín við hana. Ekkert slíkt kemur fram í gögnum málsins.
Því miður hafa fjölmargir byggt afstöðu sína á grunni þessara röngu upplýsinga, og sumir þeyst fram á ritvöllinn og opinberað sína „ígrunduðu“ og „réttlátu“ nauðgunardóma yfir mér.
Eins og gefur að skilja er ég mjög ósáttur við þetta mál og allt sem því tengist. Ég mun óska eftir því við þar til bæra aðila að fá skýringar á því hvað varð til þess að málið fór jafn langt og raun ber vitni? Hvers vegna það tók þennan óratíma að fella það niður og hvort að eitthvað óeðlilegt eða saknæmt hafi átt sér stað í tengslum við kæruna? Hef ég falið lögmanni mínum að koma þeim óskum á framfæri með viðeigandi hætti.
Illgirnin og hefndarhugurinn hjá mörgum þeirra sem tjáðu sig um mig í tengslum við þetta mál ætti að vera öllum íhugunarefni. Háskólakennarar, rithöfundar, embættismenn, stjórnmálamenn og fjölmargir aðrir gengu miklu lengra en eðlilegt getur talist, svo mjög að á tímabili fékk ég það hreinlega á tilfinninguna að það væri einlæg von nokkurra þeirra sem dómharðastir voru, að nauðgun hefði átt sér stað! Þetta ömurlega mál skyldi nýtt sem réttlæting eða vopn í einhverskonar „hugmyndabaráttu“, svo ósmekklega sem það nú hljómar. Eða sem vopn í höndum þeirra sem einhverra hluta vegna töldu sig eiga eitthvað sökótt við mig. Örlög og heill stúlkunnar virtust aukaatriði. Eða, hvað annað er hægt að lesa út úr ummælum Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, á Facebook, þegar hún sagði: „Nú er bara að krossa fingur“ og tengdi frétt þess efnis að Ríkissaksóknari væri kominn með málið á sitt borð? Krossa fingur um hvað? Að stúlkunni hafi verið nauðgað eða að saklaust fólk yrði ákært?
Þetta mál hefur verið þungbært fyrir mig, unnustu mína og okkar nánustu. Þrátt fyrir sakleysi okkar hefur mannorð okkar beggja beðið alvarlegan skaða. Þar fyrir utan fylgir því nær óbærileg vanlíðan að verða fyrir ásökun um svo alvarlegan glæp. Ofan á það bættist svo mjög einhliða fjölmiðlafár.
Að síðustu vil ég ítreka að nauðgun er í mínum huga alvarlegur glæpur. Það er einnig alvarlegt mál að kæra fólk fyrir slíkan glæp að ósekju og ég á engan annan kost en að bera hönd fyrir höfuð mér. Ég vona innilega að þetta mál verði ekki til þess að draga úr trúverðugleika raunverulegra fórnarlamba kynferðisofbeldis, eða möguleikum þeirra að ná fram rétti sínum – en sú hætta er fyrir hendi þegar rangar sakir eru bornar á fólk. Ef svo reynist liggur ábyrgðin ekki hjá mér heldur öðrum þeim sem hafa viljað gera sér mat úr þessu máli.
Virðingarfyllst,
Egill Einarsson“