„Það verða einhver vatnaskil innan Samfylkingarinnar á þessum tíma [þegar ákært var í landsdómsmálinu] og Anna Kristín Ólafsdóttir er þarna í einhverjum hópi sem lendir greinilega einhvern veginn utan kants og hún sækir þetta mál fast samt gegn Jóhönnu.“
Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, en hún telur að mál Önnu Kristínar gegn íslenska ríkinu vegna brota á jafnfréttislögum lýsi m.a. ákveðinni spennu innan Samfylkingarinnar.
„Þannig að það eru einhverjar pólitískar átakalínur líka þarna. Jóhanna aftur á móti hefur kannski viljað forðast það að geta verið sökuð um að hafa ráðið samfylkingarkonu til starfa og sérstaklega þá kannski forðast það að Anna Kristín yrði ráðin,“ segir Stefanía.
„En engu að síður þá skýlir ráðuneytið sér ávallt á bak við þennan faglega ráðgjafa sem var þarna til liðsinnis og sömuleiðis þessi próf, þ.e. að þetta hafi allt verið svo faglegt. En nú hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi í rauninni ekki verið mjög faglegt, þannig að þetta er áfellisdómur yfir ráðuneytinu og þá kannski líka þessum prófum og faglegheitum sem voru þarna til viðmiðunar.“