Skuldavandi ekki leystur með skuldsetningu

Carl Hahn
Carl Hahn Morgunblaðið/Eggert

Sterk staða Volkswagen á að mörgu leyti rætur að rekja til ákvarðana, sem teknar voru þegar Carl Hahn stjórnaði fyrirtækinu á níunda áratugnum. Hahn sér ógrynni möguleika fyrir Evrópu til að vinna sig út úr kreppu og atvinnuleysi í krafti vaxtar í heiminum, en telur lykilatriði að samruni Evrópu haldi áfram. Íslendingum segir hann hins vegar að sé best borgið utan Evrópusambandsins ætli þeir að nýta sérstöðu sína og auðlindir til fulls

Segja má að Carl Hahn hafi lagt grunninn að velgengni Volkswagen á okkar tímum. Hahn reif Volkswagen upp í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar og var stjórnarformaður bílaframleiðandans í 11 ár, frá 1982 til 1993. Hann hefur ekki slegið slöku við síðan þótt sestur sé í helgan stein og orðinn sé 86 ára gamall. Hann sinnir góðgerðarmálum og situr í stjórnum fjölda fyrirtækja, þar á meðal á Íslandi.

„Það var á mínum yngri árum, 1959,“ segir Hahn og fær glampa í augun við að rifja upp þegar hann opnaði Ameríku fyrir Volkswagen og kom Bjöllunni á markað þar í landi með einhverjum óhefðbundnustu auglýsingum, sem sögur fara af. „Ég kom til Bandaríkjanna og gekk í hinn stórkostlega skóla þess lands í hlutverki sölumanns í starfi og kynntist hinum risavaxna bandaríska markaði. Bandarískur bílaiðnaður var þá í fararbroddi í heiminum, Bandaríkin voru kraftmikil, Bandaríkin voru velmegandi og skuldlaus þrátt fyrir heimsstyrjöldina. Þetta var einnig frábær tími fyrir mig vegna þess að ég fann bandaríska konu og stofnaði bandaríska fjölskyldu. Þar við bættist að við náðum góðum árangri hjá Volkswagen og ég var því mjög hamingjusamur þar.“

Hahn kvæntist Marisu Traina, sem er mágkona metsöluhöfundarins Danielle Steel, og eignuðust þau fjögur börn í Bandaríkjunum. Þegar Hahn sneri aftur til Evrópu var frami hans skjótur.

„Ég var enn ungur þegar ég kom til baka,“ segir hann. „Eftir stríðið fengum við, sem lifðum af, sérstakt tækifæri. Eftir tíma minn í Bandaríkjunum komst ég strax á toppinn. Fyrir mig var það einnig mjög skapandi tími. Tími bjöllunnar var að renna út og við vorum að byrja að vinna að algerlega nýrri framleiðslu og nýrri markaðsnálgun.“

Þar á Hahn við tegundirnar Golf og Passat, sem enn eru í fararbroddi hjá Volkswagen.

„Síðan lenti ég hins vegar upp á kant varðandi aðferðir og var hent út,“ segir hann.

Lagði grunninn að stöðu VW í dag

Hahn fór þá til Continental, sem meðal annars framleiðir hjólbarða. Fyrirtækið óx og dafnaði undir hans stjórn og ekki leið á löngu áður en Volkswagen náði í hann aftur.

„Ástæðan var líkast til sú að komið hafði í ljós að hugmyndir mínar um að vinna fleiri markaði höfðu reynst réttar. Ég fylgdi þeim síðan eftir. Eitt skipti þar mestu máli. Bílaiðnaðurinn var á mjög þjóðlegum nótum á þessum tíma. Ég Evrópuvæddi Volkswagen og hnattvæddi síðan. Nú hef ég hins vegar verið á eftirlaunum um langan aldur og sinni Guði og heiminum.“

Volkswagen er nú einn helsti bílaframleiðandi heims og ekki fjarri lagi að segja að Hahn hafi lagt línurnar að þeirri velgengni.

„Við bjuggum til innviðina og ferlin fyrir veröldina í dag og á morgun,“ segir hann og vísar til hnattvæðingar, áherslunnar á að opna Kína og fleiri þátta. „Á þessum tíma var hins vegar tekin mikil áhætta og einnig kom fram hörð gagnrýni, en eins og nú hefur komið á daginn náðum við miklum árangri þótt þá hafi allar tölur verið lægri. Eftirmenn mínir hafa náð fordæmalausum tölum í Evrópu og brátt í heiminum öllum. Volkswagen var á núllpunkti eftir tapið í stríðinu og er nú í fyrsta sæti á mörgum sviðum. Auðvitað er ekki lykilatriði hvort við erum í fyrsta, öðru eða þriðja sæti, en að minnsta kosti er hagnaður í rekstrinum og við stöndum tel ég mjög vel hvað varðar vöxt auk þess sem við njótum virðingar. Án hennar er ekki hægt að ná árangri. Þá vorum við alltaf, alveg frá tímum bjöllunnar, í hlutverki sendiherra Þýskalands. Það var gleðiefni að bjallan skyldi verða að slíku tákni um endurreisn Þýskalands sem friðsamrar þjóðar með sterka stöðu í viðskiptalífi heimsins. Það er auðvitað nokkuð sérstakt að við vegna hlutverks okkar í efnahagslífinu erum neydd til að taka að okkur forustuhlutverk í Evrópu gegn vilja okkar vegna sektarkenndar okkar, sem ég tel að við höfum enn og það með réttu, þótt nú sé komin ný og yngri kynslóð.“

Samruni Evrópu forsenda

Hahn segir að hvað sem því líði gegni Þýskaland sérstöku hlutverki innan Evrópusambandsins vegna viðskipta- og efnahagsstyrks auk þess að vera stórt í samanburði við hin aðildarríkin.

„Hins vegar má ekki líta fram hjá því að fyrir 120 árum bjuggu í Þýskalandi 7% af jarðarbúum. Eftir nokkur ár verðum við, þökk sé fæðingartíðni, sem er í algeru mótvægi við frjósemi Íslendinga, 0,7% jarðarbúa,“ segir hann og hlær. „Þar sem sama þróun virðist vera að eiga sér stað víðast hvar í Evrópu er fyrirsjáanlegt að íbúar álfunnar allrar verði brátt 6-7% jarðarbúa. Þess vegna er nú svo mikilvægt að við látum ekki evruna verða til þess að við förum út af sporinu í samruna Evrópu ef við viljum gegna hlutverki í heimsskipan morgundagsins – hlutverki, sem við getum ekki gegnt sem stakar þjóðir.“

Hahn kveðst í þessum efnum vera að tala um samruna á öllum sviðum.

„Samvöxturinn þarf að eiga sér stað í viðskiptum og hefur gert það að mörgu leyti,“ segir hann. „Samvöxtur fólksins er orðinn mun meiri en stjórnmálamannanna. Það er engin úlfúð lengur, það hafa orðið kynni með friðsamlegum hætti, sem er stórkostlegt því að Evrópa er rík að menningu, náttúru og öllu því, sem hægt er að hugsa sér. Það mikilvæga fyrir Evrópu er að við eigum þúsund ára gamla sameiginlega, kristilega menningu. Hún batt okkur meira saman áður en hún gerir nú, en er engu að síður mikilvægur þáttur fyrir framtíð okkar. En nú er evran orðin að hættu vegna þess að af léttúð var of mörgum löndum hleypt inn of hratt og það þarf að vinna á henni.“

En hversu mikilvægt telur hann að evran haldi velli.

„Ef evran hryndi myndi vissulega koma bakslag í samruna Evrópu,“ segir hann. „Reglan er sú í sögunni að slíkur samruni hefur verið afleiðing stríðs. ná saman með friðsamlegum hætti eins og við hófumst handa við eftir stríð hefur skilað okkur vel á veg og við getum verið mjög stolt af árangrinum. Þess vegna verðum við tel ég að bjarga evrunni. Það snýst ekki um evruna sem slíka heldur um það bakslag í samruna Evrópu sem myndi hljótast af falli hennar.“

Hahn segir að spurningin um það hvort Grikkland eigi að vera áfram innan evrunnar eða fara út úr henni sé mjög flókin.

„Ég vil heldur ekki svara henni vegna þess að ég vil ekki auka á glundroðann og taugaveiklunina með ummælum á Íslandi, þótt ósennilegt sé að íslenska pressan sé lesin í Þýskalandi, en ef ég tala tæpitungulaust skapast sú hætta að verkefnið verði erfiðara fyrir stjórnmálin. Þegar nýjum kenningum er daglega varpað inn á markaðstorg hugmyndanna gerir það stjórnmálamönnum einnig erfiðara fyrir. Eins og lögreglustjórinn í Berlín sagði þegar Frakkar komu undir forustu Napóleons: „Frumskylda borgarans er að halda ró sinni.“ Við verðum sem Evrópubúar einfaldlega að gera okkur grein fyrir því hver raunveruleikinn er. Við megum ekki reyna að gera okkur þetta létt því ég hef áhyggjur af að þá munum við gera illt verra. Ef við ætlum að efna til skulda til að hjálpa Grikkjum munum við gera þeim þjóðum erfiðara fyrir, sem steypa sér í þessar skuldir og skulda nú þegar nóg. Þær eru ekki beinlínis táknmyndir sparseminnar. Meira að segja Þýskaland hefur nægar skuldir. Því gengur ekki að við skuldsetjum okkur til að losna við skuldirnar.“

Peningaprentun kemur ekki í stað sparnaðar

Hann telur hins vegar að menn verði að læra af evrukreppunni.

„Við verðum að gera borgurunum grein fyrir því að lífskjör þeirra séu betri en nokkru sinni hafa náðst áður á þessari jörð,“ segir hann. „En ef þeir ætla að auka lífsgæðin enn með skuldsetningu er það sorglegt fordæmi, sérstaklega gagnvart þeim kynslóðum, sem endurreistu Evrópu úr rústunum og voru mun hógværari og sparsamari í peningamálum sínum. Þess vegna verðum við að sjá til þess að evran falli ekki og ég er þess fullviss að allt verði gert til þess þótt ágreiningur sé um leiðir. Þetta er helsti vandinn í dag því að peningaprentun getur ekki komið í staðinn fyrir að spara og vinna hörðum höndum. Einstaklingar verða líka að spara og leggja hart að sér.“

Aldrei áður jafnmikið óunnið í heiminum

Hahn er þeirrar hyggju að atvinna sé ekki vandamál. Um allan heim sé eftirspurn eftir evrópskri framleiðslu og vinnu, segir hann, og nefnir tækifærin, sem liggi í uppbyggingu innviða í Suður-Ameríku, Rússlandi og ekki síst Asíu.

„Aldrei áður hefur jafnmikil vinna verið óunnin í heiminum,“ segir hann. „Ekki gleyma því að heimurinn þarf að búa sig undir áttamilljarðasta jarðarbúann og þá verður stutt í þann níumilljarðasta. En blekkingin og hin auðseljanlega pólitíska vara, sem er kynnt fram á sjónvarpsskjám, nefnist: „Við prentum peninga.“ Og kannski er auðvelt að ná til fólks, sem ef til vill hefur ekki nógu góðan menntunargrunn og ekki gengur nógu vel, með því að segja að í stað þess að spara aukum við skuldirnar.

Í heiminum er nóg af tækifærum fyrir Evrópu. Dollarinn er undir 1,25 evrum og því eru frábær skilyrði fyrir útflutningsvörur okkar. Með aukinni vinnu verður til meiri hagnaður og auknar tekjur af tekjuskatti, sem gerir ríkinu kleift að gera meira. Síðan þarf að þvinga ríkið til að halda aga.“

Hægt að vinna bug á atvinnuleysinu

Atvinnuleysið er einn helsti vandi Evrópu um þessar mundir, sérstaklega í jaðarlöndum á borð við Grikkland, Ítalíu, Spán og Írland þar sem jafnvel helmingur ungs fólks er án atvinnu.

„Það er hægt að vinna bug á atvinnuleysinu,“ segir hann. „Þegar evran er í 1,25 dollurum er það skref í rétta átt. Við þurfum að átta okkur á því að þegar verksmiðjur Volkswagen ná því að starfa 320 daga á ári til þess að hraða uppbyggingu þar í landi ættum við að geta minnt okkur á að hver og einn verður að leggja harðar að sér þegar hann skuldar og það á líka við um þjóðir. Um allan heim er mikið unnið, en hlutfallslega minnst í Evrópu. Um leið eru menn hlaðnir skuldum. Það fer ekki saman. Þess utan er nauðsynlegt vegna þess að fólksfjöldinn skreppur saman að vera vakandi vegna þess að hlutfallslega þurfa stöðugt færri að næra fleiri aldraða. Niðurstaðan getur aðeins verið sú að hinir virku vinni alltaf meir og meir og eignist vonandi einhvern tímann fleiri börn.“

Hahn segir að atvinnuleysi ungs fólks, sem hafi gengið menntaveginn og í raun gert allt rétt, en fái síðan ekkert að gera, sé skelfilegt.

„Þar verður mér hugsað til Spánar, en þau lönd, sem svona er fyrir komið, verða að gera sig samkeppnishæfari,“ segir hann. „Ég nefndi hér áðan fordæmalausan útflutning Þýskalands, sem gæti meira að segja flutt meira út til Asíu, og það sama á við um þessi lönd. En þá þyrfti kannski að koma til það, sem hefur gerst á Íslandi. Þegar ekki var vinnu að hafa í Póllandi fór fólk til útlanda. Guði sé lof er einnig nóg af hámenntuðum Spánverjum, sem nú læra þýsku og koma til Þýskalands. Ég held að við verðum einnig að venja okkur við það að það er hluti af Evrópuvæðingunni að búa erlendis og að dvöl í útlöndum auðgar líf ungs fólks, sérstaklega þegar það er vel menntað, og getur haft mjög eflandi áhrif. Þetta á einfaldlega að segja opinskátt einmitt til þess að draga úr hræðilegum aðstæðum eins og atvinnuleysi ungs fólks á Spáni í stað þess að kvarta og kveina. Og í Þýskalandi hefur dregið svo úr fæðingum að þar er auðvelt að fá tækifæri. Þetta eru hlutir, sem passa ekki í áætlanir og stefnuskrár stjórnmálaflokka, en eins og einn af forustumönnum kínverska kommúnistaflokksins sagði eitt sinn, að í upphafi tuttugustu aldar hafi verið rétt að láta Marx og Engels vísa veginn, en nú láti hann veruleikann í heiminum vísa sér veginn. Stjórnmálamenn verða að láta hina raunverulegu stöðu í heiminum ráða för, en síður hinar gömlu flokksstefnuskrár gærdagsins, því að við lifum þegar í heimi morgundagsins. Það er stóra breytingin.“

Stjórnmál forðast veruleikann

Hahn kveðst telja að stjórnmál í Evrópu séu enn of stað- og flokksbundin.

„Auðvitað kýs hver kjósandi í sínu héraði, en án raunsæs mats á stöðunni og með því að bíða alltaf eftir prentvélinni og nýjum skuldum munum við aldrei leysa vanda hins mikla atvinnuleysis á Spáni. Öll þurfum við í Evrópu að gera okkur far um að efla menntun og auka samkeppnishæfnina og þá verður ekkert atvinnuleysi. Í Þýskalandi sýndum við fyrir tilstilli skynsemi stéttarfélaganna að hægt er að reka skynsamlega launastefnu og draga þannig úr atvinnuleysinu. Það er hægt.“

Hann vísar einnig til þess árangurs, sem náðst hefur í Kína, þar sem hagvöxtur hefur verið í kringum 10% og verður væntanlega 8% á þessu ári. „Þegar ég var ungur nam aukning í bílaframleiðslu í Kína 10 til hundrað þúsund bílum á ári. 600 þúsund bílar voru smíðaðir í Kína árið 2003. Í fyrra voru þeir 18,5 milljarðar, sem er sexföldun frá árinu 2003. Ef getan til að framleiða bíla í Kína þarf að tvöfaldast á næstu tuttugu árum – að ekki sé talað um Suður-Ameríku og Rússland og svo framvegis – getum við rétt ímyndað okkur hvað það þýðir í vinnu, í störfum, sem krefjast hárrar menntunar. Það eru engin takmörk og hverjir eiga að manna öll þessi forustustörf? Kínverjar geta það ekki. Þarna eru gríðarleg tækifæri og grípi maður ekki tækifærin þegar maður er ungur er virkilega illa fyrir okkur komið. Ég tel að ávinningurinn, grípi maður tækifærin, sé mikill og góður. Sá sem nú finnur vinnu erlendis, segjum í Þýskalandi, mun einn góðan veðurdag snúa reynslunni ríkari heim. Margir snúa heim þótt aðrir verði um kyrrt og stofni fjölskyldu.“

Hahn segir að Evrópa bjóði upp á þennan hreyfanleika og hann nái ekki aðeins til íbúa í Austur-Evrópu, heldur Evrópu allrar.

„Þennan möguleika ættu allir að nýta sér, en stjórnmálamenn, sem eru að reyna að ná kjöri, fást of lítið um þessi mál. Þeir eru á atkvæðaveiðum, en hafa ekki sett sér það verkefni að gera fólki grein fyrir því að það hafi lifað um efni fram og gert þau mistök að skuldsetja sig og fyrir það verði að borga.“

Aðhald og niðurskurður hefur orðið kveikjan að mótmælum víða í Evrópu og Francois Hollande, nýkjörinn forseti Frakklands, byggði stjórnmálabaráttu sína á því að aðhaldsaðgerðum yrði að fylgja hvati og innspýting til að glæða efnahagslífið á ný.

„Ég myndi segja Hollande að augljóslega hafi hann unnið kosningasigur með þessari gagnrýni, en þar með hafi hann ekki skapað forsendur til að gera þær umbætur, sem þarf að gera í Frakklandi og einnig að hluta til á Ítalíu, til að þessi stórkostlega og hámenntaða þjóð verði jafn samkeppnishæf og sveigjanleg og Þýskaland – eða, svo maður noti það hræðilega orð, Bandaríkin, þótt þar sé mikil gagnrýni. Einnig væri hægt að nefna Kína eða Brasilíu. En við getum ekki bætt við skuldum þegar við erum ofhlaðin skuldum. Litli maðurinn fengi það ekki og það sama ætti að gilda um þjóðir, hversu stórar, sem þær eru. Það væri auðvitað hægt að nota hið fræga meðal og stela sparifé heillar kynslóðar og láta það fuðra upp í verðbólgu. Það er þrautreynd leið því þá er hinum skuldsettu ekki refsað, þeir verða horfnir veg allarar veraldar, en síðan þarf fyrir alvöru að grípa til harðra aðgerða og þá munu allir standa klæðlausir á berangrinum.

Því get ég aðeins sagt við Frakka, sem eru miklir hugsuðir og kunna að draga ályktanir – ég lærði og starfaði í Frakklandi og elska landið eins og Ítalíu – en ég verð að segja að það þarf meiri kjark í pólitíkina til að draga fram hina raunverulegu stöðu og reka áróður fyrir raunverulegum meðulum, en ekki einhverjum sykri.“

Hefði aldrei sótt um aðild

Hahn ræðir nauðsyn aukins samruna í Evrópu og talar um smæð Þýskalands í því sambandi, en þegar Ísland er nefnt tekur hann annan pól í hæðina.

„Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum,“ segir hann. „Ísland er langt í burtu. Ísland er lítið, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar. Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað bestri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn. Ef maður horfir raunsætt á málið – og hér er ekki um að ræða ásakanir á hendur neinum á Íslandi – er rétt að segja eins og Vaclav Klaus í Prag: „Við göngum ekki í evruna.“ Þegar Evrópa nær að komast fram á við, skipuleggja sig og reka öfluga viðskipta- og fjármálapólitík og þá um leið evrupólitík verður hægt að taka inngöngu til athugunar, en í dag er ljóst að hið ótrúlega ríkidæmi Íslands, sem ekki er bara fólgið í 720 þúsund ferkílómetrum af hafi til fiskveiða og miklu pólitísku sjálfstæði og styrk og hagkvæmri stöðu eins og kemur fram í því að kínverskir ráðamenn leita ráða hjá og heimsækja núverandi forseta, sem alls staðar kemur að opnum dyrum, yrði ekki til framdráttar með sama hætti og yrði Ísland enn eitt aðildarríki Evrópusambandsins. Þá myndu kínverskir valdamenn ekki leita hingað.“

Ísland í framúrskarandi stöðu

Hahn kvaðst telja að Íslendingar væru vegna mikilvægrar legu landsins, sjálfstæðis, góðrar menntunar, fæðingartíðni og góðs árangurs í að vinna á fjármálakreppunni í framúrskarandi stöðu til að selja hérlenda framleiðslu og þjónustu.

„Þess utan furða ég mig á því hvernig land með 320 þúsund íbúum fer að því að reka öll þessi sendiráð, eiga alla þessa stjórnmálamenn, vera með ríkisstjórn, hvort sem hún er talin góð eða slæm, um það get ég ekki dæmt, en landið gengur, viðskiptalífið virkar og fólkið er vel menntað. Það er ótrúlegt að svo lítið land sé í aðstöðu til þess að reka flugfélag með góðum árangri og alþjóðlegan flugvöll, fiskiskipaflota og landhelgisgæslu og halda við svo umfangsmiklu gatnakerfi. Sennilega hefur ekkert land í heiminum lagt jafnmarga kílómetra af götum á hvern íbúa og Ísland.“

Hahn segir að út frá tölfræðinni hljóti, sama hvert litið sé í íslensku samfélagi, að mæða mikið á, en það sé ekki að sjá.

„Þegar ég skoða mig um í Reykjavík og sé þessi grænu svæði og mikið af nýbyggingum, sem bera fjölbreytni í húsagerðarlist vitni, anda að mér hreinu loftinu og velti fyrir mér þeirri fyrirmyndarstöðu, sem Ísland nýtur í umhverfismálum og hvernig stjórnmálin leitast við að bæta hana með því að ýta undir notkun bíla, sem ekki blása koltvísýringi út í andrúmsloftið, get ég ekki annað sagt en frábært.

Enginn áttar sig á því þegar rætt er um Ísland hvað hér búa fáir, það er einfaldlega land með vægi í huga fólks. En þið eruð í góðri stöðu bæði hvað varðar vatn og orku og það opnar möguleika í Kína, þar sem vatnsbúskapur er hvað erfiðastur í heiminum, en einnig í Afríku og víðar þar sem Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til að bæta hlutskipti fólks.“

Í stjórn Reykjavík Geothermal

Carl Hahn er varaformaður orkufyrirtækisins Reykjavík Geothermal, sem er með starfsemi víða um heim, allt frá Mexikó til Indlands.

„Ég hef upplifað það hjá fyrirtækinu Reykjavík Geothermal hvað hér er frábært fólk á plani sem er alþjóðlega viðurkennt. Maður getur verið stoltur af því einu að sitja í stjórn slíks fyrirtækis. Það hefur verið mér mjög dýrmætt að fá að tengjast Íslandi. Það hefur verið áskorun að fást við orkumálin, en ég nýt þess að koma hingað og er í mjög góðum tengslum við stjórnendur líkt og við hefðum alltaf þekkst.“

Kína er þungamiðja heimsins

Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo hefur hug á að leigja Grímsstaði á Fjöllum. Það hefur vakið umræðu á Íslandi og víðar og hefur verið sett í samhengi við viðleitni Kínverja til að seilast til áhrifa víða um heim. Telur Hahn ástæðu til tortryggni í garð Kínverja?

„Ég er ekki á nokkurn hátt tortrygginn í garð Kínverja,“ segir hann. „Ég hef allt mitt líf átt saman við Kínverja að sælda og á lykiltíma í forustu Volkswagen starfaði ég með æðstu ráðamönnum Kína. Ég ber mikið traust til þeirra og því miður getur engin stjórn í nokkru öðru landi sýnt fram á annan eins hagvöxt og stjórn Kína auk þess hvað hún hefur komið ár sinni fyrir borð af miklum klókindum á alþjóðlegum vettvangi.

Ef kínverskur borgari hefur hins vegar hug á að kaupa eitthvað hér þarf að skoða mjög rækilega hvað hann hyggst fyrir. Ég hef auðvitað enga skoðun á málinu, en ég skil að íslensk stjórnvöld vilji fara yfir málið og að Íslendingar spyrji sig hvað manninum gangi til. En Kína er nú þungamiðja heimsins. Flestir gleyma því að þannig hefur það verið mestalla mannkynssöguna. Kína hefur alltaf verið skapandi, haft öfluga menningu og verið leiðandi í vísindum. Þannig verður það um ófyrirsjáanlega framtíð og því gleður mig að forseti ykkar hafi svona gott samband við Kína. Það er gott þegar 320 þúsund manna þjóð nýtur velþóknunar í landi 1,3 milljarða manna – en maður þorir varla að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef kínverskir ferðamenn uppgötvuðu Ísland, væntanlega myndi skapast neyðarástand.“

Carl Hahn
Carl Hahn Morgunblaðið/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka