Samningsmarkmiðin í sjávarútvegi tilbúin

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Úr myndasafni.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Úr myndasafni. Reuters

„Við þurfum að hefja viðræðurnar, takast á við vandamálin og þannig munum við ná samkomulagi sem Ísland mun fara eftir. Við erum reiðubúin að leggja fram samningsmarkmið okkar,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra við fjölmiðla í Brussel í gær samkvæmt fréttaveitunni Agence Europe aðspurður um viðræður um sjávarútvegsmál vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

Ríkjaráðstefna Íslands og Evrópusambandsins fór fram í gær en þar voru þrír nýir samningskaflar opnaðir í viðræðunum um inngöngu Íslands í sambandið. Þar með hafa 18 kaflar verið opnaðir af 35 en af þeim hefur tíu verið lokað til bráðabirgða. Þeir kaflar sem talið er að verði erfiðastir, um landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, hafa hins vegar ekki verið opnaðir enn.

Haft er eftir Össuri að hann telji að hægt verði að ná samkomulagi um sjávarútveginn í viðræðunum vegna góðs skilnings Evrópusambandsins á hagsmunum Íslendinga. „Evrópusambandið hefur alltaf lagt áherslu á að finna sérhannaðar lausnir fyrir hagsmuni umsóknarríkja án þess að troða á þeim meginreglum sem skipta þau ríki máli. Ég á von á frjóum lausnum. Við erum ólík Noregi sem hefur tvisvar sagt nei við Evrópusambandið,“ sagði Össur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert