Sat föst í ánni með tvö börn

mbl.is/Ernir

Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli var kölluð út um klukkan fjögur í dag þegar tilkynning barst um að kona og tvö börn sætu föst í bíl í Gilsá, sem er norðan Markarfljóts til móts við Húsadal í Þórsmörk. Samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hugðist konan aka bílnum yfir vað í ánni en var ekki komin alla leið yfir þegar bíllinn stöðvaðist.

Þá var hópur björgunarsveitarfólks úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík, sem staddur var í Básum, einnig kallaður til. „Konan beið í bílnum með börnin eftir aðstoð þrátt fyrir að töluvert flæddi inn í hann. Björgunarsveitin var komin á staðinn og búin að ná fólkinu í land um 45 mínútum eftir að útkall barst. Voru allir heilir á húfi. Þessa stundina er verið að reyna að ná bílnum úr ánni,“ segir í tilkynningunni.

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir ferðafólk á að fara varlega þegar ár eru þveraðar. Þær séu oft vatnsmeiri seinni part dags og þá ekki síst þegar veður er gott og sól skín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert