Á safn með 30.000 vínilplötum

Ólafur Sigurðssonþ
Ólafur Sigurðssonþ Morgunblaðið/Styrmir Kári

Í húsi í Hafnarfirði er að finna fágætt safn vínilplatna sem Ólafur Sigurðsson hefur viðað að sér.

Ólafur leggur áherslu á að eignast sem flesta íslenska titla, en stærstur hluti safnsins er þó útlendur. Hann safnar bæði stórum vínilplötum og minni plötum. Safn hans telur um 23.000 stærri plötur og um 7.000 minni plötur.

Í safninu eru nokkrar fágætar vínilplötur og á hann um 100 áritaðar íslenskar plötur, meðal annars með áritun Hauks Morthens og Ellýjar Vilhjálms. Einnig á hann plötu sem meðlimir The Dubliners árituðu allir þegar þeir komu hingað til lands.

Ólafur er í Hjómplötuklúbbnum, sem er klúbbur íslenskra plötusafnara. Meðlimir klúbbsins eru tólf og þeir hittast reglulega heima hjá hver öðrum, hlusta á tónlist og skipta sín á milli á plötum, enda misjafnt hverju hver og einn safnar.

Seljast á tugi þúsunda á netinu

Ólafur segir að viðskipti með plötur fari einnig fram á netinu og þar geta fágætar íslenskar plötur verið að seljast fyrir tugi og upp í hundruð þúsunda. Aðspurður um það sem er eftirsóttast á netinu segir hann: „Það er Svanfríður, Icecross og Umbarumbamba, hún hefur bara ekki sést heil í umslaginu í nokkur ár. Ég veit ekki hvað hún færi á í dag.“

Ólafur leggur áherslu á að hann sé að safna saman tónlistarsögunni enda er hann mikill áhugamaður um tónlist. Hann segir að virði platna fyrir safnara fari eftir ýmsu. Ástand plötunnar skiptir miklu, en ekki síður ræðst virði hennar af því hversu mikið af sambærilegu efni safnarinn á fyrir.

Aðspurður um hvað sé í mestu uppáhaldi segir Ólafur: „Allt frá tímabilinu ´60-´70. Rokkið, gamla ameríska rokkið. Bill Haley og þessir gömlu meistarar, Bítlarnir, Stones, Pink Floyd, Deep Purple, Zeppelin og þetta tímabil. Þá er ég að safna fyrstu útgáfunum í góðu standi.“

En hvert er mesta fágætið sem Ólafur á? „Það er safnið hans Hilmars Arnar Hilmarssonar. Hann gaf mér safnið sitt, með tónlistinni hans. Það er eitt það merkilegasta sem ég á. Þar í er algjört fágæti sem er mjög eftirsótt af söfnurum úti, en það læt ég ekki. Ef hann þarf einhvern tíma að fá eitthvað úr þessu þá er það hér og passað upp á það.“

Notað í seinni heimsstyrjöld

Fyrir nokkrum árum rakst Ólafur á safn 78 snúninga platna frá Bretlandi. Safnið hafði verið í eigu Karls Strand sem var læknir í Lundúnum á stríðsárunum. Þá lánaði hann plöturnar og voru þær spilaðar í neðanjarðarlestargöngunum í Lundúnum meðan á stríðinu stóð og Þjóðverjar voru að sprengja í borginni.

Ólafur segir safnið sem slíkt ekki mikils virði í krónum talið hvað varðar fágæti tónlistarinnar og hann segir 78 snúninga plötur ekki sérlega eftirsóttar af söfnurum, en vegna sögu safnsins sé það mikils virði og þess vegna hafi hann tekið það að sér.

„Þetta var fyrir fólkinu í kjallara í Vesturbænum og var öllum til ónæðis en ég tók þetta að mér og bjargaði þessu,“ segir Ólafur.

Í safninu eru nokkrar fágætar vínilplötur og á hann um …
Í safninu eru nokkrar fágætar vínilplötur og á hann um 100 áritaðar íslenskar plötur, meðal annars með áritun Hauks Morthens og Ellýjar Vilhjálms. Einnig á hann plötu sem meðlimir The Dubliners árituðu allir þegar þeir komu hingað til lands. Morgunblaðið/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert