„Kirkjan hefur haft mótandi áhrif á samfélagið alla tíð, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna þess erindis sem henni er ætlað að koma á framfæri. Það erindi er gefandi og gott, lífgefandi, styrkjandi. Þess vegna er kirkjan ein af grunnstoðum samfélagsins,“ sagi Agnes M. Sigurðardóttir í vígslupredikun sinni í Hallgrímskirkju í dag.
Agnes sagði þjóðkirkjuna hafa þurft að horfast í augu við mörg lærdómsrík mál og búa þannig um hnútana að hægt væri að horfa björtum augum til framtíðar. Hún sagði það starf hafa eflt þjóna kirkjunnar og þeir ferlar sem mótaðir hefðu verið væru öðrum fordæmi í samfélaginu.
Agnes sagði boðskap kirkjunnar eiga erindi við hvern og einn og líka allt samfélagið.
„Jesús Kristur lét sig varða mál einstaklinga sem og samfélags. Hann var leiðtogi sem læra má af í þeim fræðum og hann var alls ekki meðvirkur eins og hættir til á stundum. Við lærum af boðskap hans sem og honum sjálfum og nærumst af orði hans,“ sagði Agnes.
Hér má lesa predikun Agnesar í heild.