Ráðin borgarbókavörður

Pálína Magnúsdóttir
Pálína Magnúsdóttir

Pálína Magnúsdóttir, bæjarbókavörður á Seltjarnarnesi, hefur verið ráðin í embætti borgarbókavarðar í Reykjavík. Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar samþykkti þetta einróma á fundi sínum, sem haldinn var í dag.

16 umsóknir bárust um stöðuna sem auglýst var í maí sl. Að tillögunni stóð fagnefnd sem í sátu Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, Árni Ragnar Stefánsson, staðgengill mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar, og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður. Ráðningafyrirtækið STRÁ ehf. annaðist flokkun umsókna og ráðgjöf.

Samhljóða mat fagnefndarinnar er að Pálína Magnúsdóttir uppfylli best umsækjenda þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið, en þar var m.a. krafist framhaldsmenntunar á háskólastigi, að lágmarki 5 ára stjórnunarreynslu, leiðtogahæfni og þekkingar til að leiða þetta stærsta almenningsbókasafn landsins inn í nýja tíma breyttrar miðlunartækni, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Pálína er 49 ára gömul og er með háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og MA-próf í menningar- og menntastjórnun. Í því námi lagði hún áherslu að skoða samspil stefnumótunar sveitarfélaga í menningarmálum við rekstur almenningsbókasafna. Hún hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum, en Pálína hefur gegnt stöðu bæjarbókavarðar á Seltjarnarnesi sl. 21 ár. 

Fráfarandi borgarbókavörður er Anna Torfadóttir, en hún hefur stýrt Borgarbókasafni Reykjavíkur síðastliðin 14 ár. Gert er ráð fyrir að nýr borgarbókavörður taki til starfa 1. september næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert