Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að leggja 500 þúsund króna stjórnvaldssekt á Samkaup fyrir brot á útsölureglum með því að auglýsa bækur á tilboði án þess að hafa selt þær á tilteknu fyrra verði.
Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar segir að Neytendastofu hafi borist ábendingar frá neytendum um villandi tilboð og afslætti, sem seljendur jólabóka bjóði í aðdraganda jóla, auk þess sem stofnunin hafi orðið vör við miklar auglýsingar og að svo virtist sem sumar bækur væru ítrekað á tilboði og tilboðsverð gjarnan auglýst frá „listaverði“. Því hafi stofnunin ákveðið að taka sérstaklega til skoðunar auglýsingar og kynningar á verði bóka fyrir jól.
Neytendastofa hafi farið í aðgerðir sem lauk með því að fimm söluaðilar voru sektaðir fyrir brot gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 og reglum um útsölu og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði nr. 366/2008.
Gögn málsins báru með sér nokkurn samstarfsvilja Samkaupa og að verslunin hafi í kjölfar auglýsinganna 1. desember 2011 breytt bókaauglýsingum sínum í því skyni að taka tillit til athugasemda Neytendastofu. En jafnvel þótt tekið hafi verið tillit til samstarfsvilja Samkaupa taldi áfrýjunarnefndin að sektin væri hófleg.