„Við þyrftum að fá úttekt á starfsháttum kærunefndar jafnréttismála. Fyrst þetta mál gat orðið svona undarlegt getur verið að víðar sé pottur brotinn í starfi nefndarinnar,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, á heimasíðu sinni í dag. Tilefnið er kæra Önnu Kristínar Ólafsdóttur á hendur forsætisráðuneytinu þar sem hún fékk ekki stöðu skrifstofustjóra í ráðuneytinu.
Stefán lýsir furðu sinni á því að kærunefnd jafnréttismála skuli í tengslum við það mál hafa umboð til þess að ógilda hæfnismat sérstakrar hæfnisnefndar sem skipuð var til þess að meta hæfni umsækjenda um stöðuna og spyr hvort kærunefndin sé „ekki komin út fyrir sitt svið þegar hún gerist eins konar yfirmatsnefnd starfshæfnimats til allra starfa hjá hinu opinbera – á öllum fagsviðum? Svo virðist vera.“
Þá veltir hann því upp hvað hefði verið sagt ef Anna Kristín hefði verið ráðin, í ljósi þess að hæfnisnefndin hafi talin hana fimmtu í röðinni af þeim sem komu til greina í stöðuna en einnig í ljósi þess að hún sé að sögn Stefáns þekkt Samfylkingarkona. „Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur virðist hafa gert rétt í málinu, en Kærunefnd jafnréttismála fór langt út fyrir eðlilega starfshætti,“ segir hann að lokum.