Jón Gnarr borgarstjóri kynnti sér í dag starfsemi Strætó. Hann skoðaði m.a. Hlemm, aðalstöðvarnar í Mjóddinni og rekstrarsviðið á Hesthálsi.
Heimsóknin hófst á Hlemmi þar sem forsvarsmenn Strætó, þeir Reynir Jónsson framkvæmdastjóri, Hörður Gíslason fjármálastjóri og Jóhannes Jóhannesson, sviðsstjóri rekstrarsviðs, tóku á móti borgarstjóra og sýndu honum ýmsar endurbætur á biðstöðinni, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Jón Gnarr náði tali af nokkrum þaulreyndum vagnstjórum, m.a. Andra Bachmann, sem þekkir vel leiðir og viðskiptavini strætisvagnanna. Síðan dreif borgarstjóri sig upp í leið 6 sem flutti hann og fylgdarlið upp í Ártúnshverfi þar sem rekstrarsvið Strætó er til húsa.
Borgarstjóri hefur á undanförnum mánuðum heimsótt fjölmarga vinnustaði borgarinnar og kynnt sér starfsemina og í daginn í dag helgaði hann almenningssamgöngum.