Komast upp með skilningsleysi

Lúðvík Bergvinsson er fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Lúðvík Bergvinsson er fyrrverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Lúðvík Bergvinsson hjá Bonafide lögmönnum furðar sig á því hvers vegna fjármálafyrirtækin geti ennþá innheimt ólögleg lán og þau komist upp með að þykjast ekki skilja dóminn.

Lúðvík Bergvinsson var gestur Heimis Karlssonar og Kolbrúnar Björnsdóttur í morgunþætti Bylgjunnar í morgun. Þar voru ræddir gengislánadómar Hæstaréttar og dómur sem Evrópudómstóllinn felldi nýverið, en sá dómur ætti að hafa áhrif á gengisdóma Hæstaréttar.

Lúðvík furðar sig á því hvers vegna fjármálafyrirtækin geti ennþá innheimt ólögleg lán: „Svo virðist vera að fjármálafyrirtækin komist upp með það að þykjast ekki skilja dóminn,“ segir Lúðvík, en hann segir þau halda áfram að innheimta ólögleg lán eins og ekkert hafi í skorist. Það er óásættanlegt fyrir réttarríkið að tilteknir hópar í samfélaginu þurfi ekki að fara eftir dómum og í reynd vegur slík háttsemi að undirstöðum þess.

Lúðvík spyr sig einnig að því hvort einstaklingur geti gert hið sama: „Getur einstaklingur sem verður undir í dómsmáli bara lýst því yfir, að þar sem hann skilji ekki dóminn, þá hafi hann tekið ákvörðun um það að framfylgja ekki dómnum?," segir Lúðvík.

Hvar er framkvæmdavaldið?

Lúðvík segir þessi mál endurspegla hversu lýðræðiskjörin stjórnvöld eru í raun veikburða gagnvart fjármálavaldinu, ekki aðeins hér á landi heldur víða: „Ef fjármálaveldi beitir sér af fullri hörku, þá á einstaklingurinn enga möguleika gagnvart því og treystir því á stjórnvöld til að verja rétt sinn,“ segir Lúðvík og bendir á að stjórnarskráin hafi falið framkvæmdavaldinu að framfylgja lögum og dómum. Ráði framkvæmdavaldið ekki við verkefnið er vá fyrir dyrum.

HÍ sinnir ekki hlutverki sínu

„Hlutverk háskóla er að halda uppi gagnrýnni umræðu,“ segir Lúðvík og veltir því fyrir sér hvers vegna lagadeildir háskólanna hér landi hafi ekki tjáð sig um málið. „Er þetta eðlilegt? Verðskulda þessi mál ekki miklu meiri umfjöllun? Hvaða áhrif hefur það á réttarríkið ef aðilar komast upp með það að virða ekki dóma? Getur ríkið þurft að greiða skaðabætur á síðari stigum sökum þess, að það hefur látið ólögmætar innheimtur fjármálafyrirtækjanna í hverjum mánuði óátaldar, t.a.m. ef fjármálafyrirtækin verða ekki á síðar stigum í stakk búin til að endurgreiða?“ bætir Lúðvík við og spyr sig, hvort fjármálafyrirtækin telji dóma einungis vera fordæmisgefandi þegar þeir falla þeim í hag? Fjármálafyrirtækin eru aðeins þjónustuaðilar við almenning og fyrirtæki, hagsmunir þeirra eiga hvorki að ganga framar hagsmunum almennings né fyrirtækja eða samfélagsins í heild, eins og oft má ráða af umræðunni.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Lúðvík í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert