„Mæli tvímælalaust með hreyfiseðlum“

Tilraunaverkefni með hreyfiseðla er nú í fullum gangi. Reynslan af …
Tilraunaverkefni með hreyfiseðla er nú í fullum gangi. Reynslan af þeim þykir vera mjög góð. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Tilraunaverkefni um svokallaða hreyfiseðla, þar sem læknar ávísa hreyfingu í stað lyfja, hefur nú staðið yfir í rúmlega ár og hefur gengið mjög vel að sögn aðstandenda verkefnisins. Í sama streng tekur Einar Þorbjörnsson, verkfræðingur, einn af þeim rúmlega 100 manns sem hafa nýtt sér þetta meðferðarúrræði. Hann segir reynslu sína mjög góða. 

Einar segir að hann hafi ekki vitað um tilvist hreyfiseðla fyrr en læknir sinn, Jón Steinar Jónsson, hefði ávísað einum slíkum til hans. Einar hafði verið með of háan blóðsykur í um ár, og gekk illa að ná honum niður. Einar segir að Jón Steinar hafi boðið honum tvo valkosti: Annað hvort tæki hann pillur daglega, eða hann færi að hreyfa sig meira í samráði við Héðin Jónsson, sjúkraþjálfara. Einar þáði hreyfinguna með þökkum og byrjaði 1. október síðastliðinn að fylgja æfingaráætlun. 

„Ég er ekki í mjög stífu prógrammi þannig séð, ég geng fjórum sinnum í viku, rúmlega þrjátíu mínútur stíft, lárétt eða með bratta, víða um [Garða]bæinn, þannig að ég hef séð bæinn betur og öðruvísi en ég var vanur, í alls kyns veðrum í allan vetur.“ Einar segir að þetta hafi skilað mjög góðum árangri: „Jón Steinar kíkti á mig í lok maí, og allt var komið í eðlilegt horf, og ég hef lést að auki. Það er þó ekki þyngdin sem máli skiptir í þessu segir Jón Steinar mér, heldur er það þessi kerfisbundna hreyfing sem skiptir sköpum.“

Myndi Einar mæla með þessu úrræði? „Alveg tvímælalaust og ég geri það þegar tækifæri gefst," segir Einar og bætir við: „Ég held að sem flestir ættu að þiggja þetta og taka þátt í þessu prógrammi. Það er lítill sem enginn kostnaður við þetta og það þarf smá aga. Þetta var gott fyrir mig, þar sem ég sit mikið við skriftir að þetta rífur mig upp og dregur mig út, og ég tel að fólk sem er í svipaðri stöðu ætti að taka þetta upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert