Sorplöggurnar aðeins „reyksprengja“

Bannað er að henda spilliefnum og garðaúrgangi í svörtu tunnuna …
Bannað er að henda spilliefnum og garðaúrgangi í svörtu tunnuna og ekkert nema pappír má fara í þá bláu Friðrik Tryggvason

„Athyglin núna er á meintum sorplöggum. Ógurlegar ófreskjur innfluttar frá fyrrverandi Sovétríkjunum sem eru hér komnar til að svívirða einkalíf fólks. Þetta er reyksprengja og það vita þeir sem þekkja málið.“ Þetta segir Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.

Kristín Soffía skrifar pistil um fund ráðsins sem fram fór í dag en þar samþykktu fulltrúar Samfylkingar og Besta flokks tillögu um aukna endurvinnslu í Reykjavík. „Ég veit að mörgum finnst það sjálfsagt og aðrir eru hreinlega reiðir yfir því að þetta hafi ekki verið gert fyrr og að ekki sé gengið lengra.“

Hún segir að tillagan sem samþykkt var hafi verið einföld; „Bannað verður að henda pappír og skilagjaldsumbúðum með almennu sorpi.“ Borgarbúar hafi síðan val um það hvernig þjónustu þeir vilja. Hægt sé að nýta sér grenndargáma og endurvinnslustöðvar, panta sér bláa tunnu frá Reykjavíkurborg eða panta sér endurvinnslutunnu frá Íslenska Gámafélaginu eða Gámaþjónustunni.

Sífellt verið að taka stikkprufur

Kristín Soffía bendir einnig á, að í dag sé bannað að henda spilliefnum og garðaúrgangi í svörtu tunnuna og ekkert nema pappír má fara í þá bláu. „Því er sífellt verið að taka stikkprufur og ef óæskileg efni finnast í tunnunum þá eru þær skildar eftir.“ Sorplöggurnar ógurlegu séu hins vegar „reyksprengja“.

Þá segir hún að Reykjavíkurborg sé með breytingunum að axla ábyrgð og stíga inn í framtíð aukinnar sjálfbærni. „Látum ekki reyksprengjur villa okkur sýn og fögnum því að loksins séu komin aukin tækifæri fyrir Reykvíkinga að sýna ábyrgð í verki.“

Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.
Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka