Breytingar á bótakerfi kosta marga milljarða

Breytingar á bótakerfi lífeyrisþega kostar milljarða
Breytingar á bótakerfi lífeyrisþega kostar milljarða mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 2,6 milljarðar munu falla á ríkissjóð strax á næsta ári ef þær breytingar sem áætlað er að gera á bótakerfi lífeyrisþega samkvæmt nýlegu samkomulagi verða að lögum. Þegar breytingarnar eru síðan loks komnar í fulla framkvæmd, að fimm árum liðnum, þá mun kostnaðaraukningin nema 9,6 milljörðum króna á ári. „Þetta á að hafa í för með sér 2,6 milljarða aukningu á næsta ári og á þessum fimm árum þá fer síðasta árið upp í 9,6 milljarða,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

„Þetta er náttúrlega alltaf spurning um hvað skattgreiðendur þurfi að borga. Hvað getum við lagt mikið á ungu hjónin með börnin til þess að afi og amma hafi það gott,“ segir Pétur H. Blöndal, alþingismaður, en hann skilaði bókun við nýlegt samkomulag um einföldun á bótakerfi ellilífeyrisþega þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum af því að breytingarnar sem í því fælust gætu reynst vinnandi fólki of dýrar.

Að sögn Péturs er hann hinsvegar ánægður með einföldunina sem yrði á kerfinu við þetta en hann telur hana vera verulega mikils virði. „Það er verulega mikil einföldun að vera hvorki með heimilisuppbót né framfærsluuppbót heldur vera bara með eina tegund af lífeyri frá Tryggingastofnun,“ bætir Pétur við.

Mikil þörf á að einfalda kerfið

„Lífeyrissjóðirnir hafa ekki komið að þessu með beinum hætti,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða. Að sögn hennar tóku þó aðilar sem standa að lífeyrissjóðunum, t.d. SA og ASÍ, þátt í vinnu starfshópsins sem unnið hefur að endurskoðun almannatryggingalaga. „Okkur finnst mikil þörf á að einfalda kerfið. Það er náttúrlega til bóta, ég held að það séu allir sammála um það,“ segir Þórey og bætir við: „Miðað við það sem við þekkjum af þessu samkomulagi þá getum við ekki annað en fagnað því að það sé verið að draga úr tekjutengingum í kerfinu og vonandi er þetta aðeins fyrsta skrefið í þá átt.“ Að sögn hennar er mjög mikilvægt að fólk sjái sér hag í því að greiða í lífeyrissjóð en hún segir þær skerðingar sem nú séu við lýði vera alfarið óásættanlegar.

Aðspurður segist Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, fagna því að „krónu á móti krónu“-fyrirkomulagið verði hægt og rólega fellt úr gildi. „Hvers vegna ætti fólk að vera að leggja í eigin sparnað í lífeyrissjóðum ef það fær jafnmiklu minna frá ríkinu? Það er enginn tilgangur að greiða í lífeyrissjóð ef það leiðir aðeins til þess að maður fái jafnmiklu minna frá ríkinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert