Fullt af ungum knattspyrnuiðkendum er á leiðinni til Vestmannaeyja í dag til þess að taka þátt í Shellmótinu, árlegu knattspyrnumóti fyrir 6. flokk drengja, en það hefur verið haldið á hverju ári síðan árið 1984, og hafa margir af dáðustu knattspyrnumönnum þjóðarinnar vakið fyrst athygli þar.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það góða upplifun fyrir bæinn að halda mótið: „Okkur finnst þetta alveg dásamlegt, þetta er eins og að fá vini sína í heimsókn þegar Shellmótið er haldið. Það er orðin svo rík hefð fyrir þessu og ánægjulegt að sjá hvernig bæjarbúar leggjast allir á eitt til að taka á móti fótboltapeyjunum og öllu til tjaldað til að gera þetta sem best. Þetta er mót sem á engan sinn líka hvorki hérlendis né annars staðar.“
Lögreglan í Vestmannaeyjum gerir ráð fyrir að um 3.000 manns muni koma til Vestmannaeyja í tengslum við mótið og hefur beðið ökumenn og vegfarendur í Eyjum að sýna varúð af þeim sökum. Aðspurður um mannfjöldann segir Elliði að fjöldi þeirra sem sæki mótið sé með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár: „Það gætu verið ívíð fleiri iðkendur, en það hefur líka orðið sú ánægjulega breyting að við erum að sjá fleiri og fleiri foreldra og aðstandendur koma með til að upplifa þetta með börnunum.“ Elliði þakkar þá þróun bættum samgöngum til Vestmannaeyja: „Nú er þetta bara skottúr fyrir mömmu og pabba og ömmu og afa að koma og horfa á leikina hjá börnunum. Núna er hægt að koma að morgni og fara að kvöldi ef fólki sýnist svo.“
Elliði segir mótið vera einn af hápunktum sumarsins í Vestmannaeyjum ásamt goslokahátíð og þjóðhátíð og þess háttar viðburðum: „Það er ánægjulegt hversu vel er staðið að þessu móti hjá íþróttahreyfingunni, og hvað það er orðið að ríkum þætti í knattspyrnulífinu hjá liðum um allt land. Eins og ég segi, þetta er eins og að fá vini sína í heimsókn þegar mótið er haldið.“