Fengu áróðursbréf gegn múslimum inn um lúguna

Múslimar við bænir á Íslandi.
Múslimar við bænir á Íslandi. mbl.is/Ómar

Í vikunni barst íbúum í grennd við Sogamýri í Reykjavík bréf þar sem varað er við byggingu mosku í hverfinu. Bréfið hefur fyrirsögnina „Mótmælum mosku á Íslandi“ og efst á því sést mynd af mosku með hauskúpu í forgrunni og blóð rennur út um munn hauskúpunnar. Bréfinu er augljóslega ætlað að vekja ugg meðal íbúa í hverfinu vegna byggingarinnar en til stendur að úthluta múslimum lóð við Mörkina til að reisa bænahús.

Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, segir bréfið innihalda alhæfingar, rangfærslur og útúrsnúninga. Sverrir situr einnig í samráðshópi trúarbragða sem hefur meðal annars það markmið að berjast gegn öfgahópum.

Munu ekki ónáða nokkurn mann

Í bréfinu er m.a. fullyrt að flest hryðjuverk séu skipulögð í moskum auk þess sem mikið ónæði hljótist af starfsemi moska. Undir bréfið ritar maður sem titlar sig sem baráttumann fyrir lýðræði, jafnrétti og frelsi.

Sverrir vísar þessu alfarið á bug og segir þetta algjört rugl. Þá tekur hann einnig fram að ekkert ónæði fylgi mosku. „Hvaða erindi eigum við t.d. að fara upp í turn í bænakall í Sogamýri yfir strætóstoppistöð og hraðbraut, við sendum bara sms,“ segir Sverrir og bætir því við að um 40 til 50 manns komi til föstudagsbæna hjá Félagi múslima á Íslandi í hverri viku og venjulega sé notast við sms eða heimasíðu félagsins til að boða fundi.

Í bréfinu sem íbúarnir fengu segir m.a. orðrétt:

„MOSKA er stjórnaraðsetur hliðarsamfélags múslima í þeim (svo) innflytjendalandinu, [þar] sem þeir eru og nokkurs konar ríki í ríkinu (sumir segja að hún sé jafnvel fyrsta fótfesta innrásarliðs - rabat - á arabísku - og háskóli í sharia-lögum). Yfirmaður moskunnar heitir yfirleitt Imam og er stjórnmálamaður fyrst og fremst og aðgerðarstjóri GEGN gestgjafaþjóðfélaginu. Á föstudögum stjórnar hann hyllingum múslíma við Mekka, Múhameð sendiboða og Allah og getur einnig haldið pólitískar ræður um verkefni vikunnar. Þar fara fram dómar samkvæmt sharia-lögum, um heiðursmorð, sem ættingjar framkvæma síðan yfir stúlkum, sem gerast of vestrænar. Sharia-lög eru kennd og kynnt þarna. Flest hryðjuverk eru skipulögð í moskunum.“

Þá segir einnig í bréfinu:

„Helstu talsmenn múslima á Vesturlöndum hafa lýst því yfir: „Að við munum misnota lýðræði ykkar og frelsi gegn ykkur sjálfum og gjöreyða þjóðskipulagi ykkar innanfrá.“

Sverrir segist ekki kannast við svona yfirlýsingar frá svokölluðum helstu talsmönnum múslima á Vesturlöndum. „Hverjir eru þetta, þeir tala allavega ekki fyrir mig,“ segir Sverrir.

Sverrir og fleiri múslimar sem mbl.is ræddi við könnuðust við sendanda bréfsins og sögðu hann hafa rekið hatursáróður gegn múslimum á internetinu um nokkurra ára skeið. Í bréfinu er t.d. vísað á facebook-síðu á vegum bréfritara sem ber yfirskriftina „Mótmælum mosku á Íslandi“ en sú síða hefur nú 1.520 fylgismenn.

Sverrir segir það sérstaklega slæmt að umræddur einstaklingur sé nú farinn að senda áróðursbréf inn um bréfalúgur á heimilum fólks eins og í þessu tilviki.

Deiliskipulag í haust

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að búið sé að samþykkja skipulagslýsingar fyrir byggingu bænahúss múslima á umræddu svæði, við Mörkina. „Næst í ferlinu er að gefa út deiliskipulag en það gerist líklega ekki fyrr en í haust, segir Páll. Þá fari í kjölfarið fram grenndarkynning á fyrirhugaðri byggingu.

Sverrir Agnarsson tekur fram að fái Félag múslima lóðinni úthlutað til byggingar mosku muni félagið að öllum líkindum halda kynningarfund um starfsemina fyrir fólk í hverfinu.

Íslenskir múslimar eru að vonum ósáttir við bréfasendingarnar. Myndin er …
Íslenskir múslimar eru að vonum ósáttir við bréfasendingarnar. Myndin er úr safni og sýnir fulltrúa ólíkra trúarhópa á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka