Fundað var í utanríkismálanefnd Alþingis í morgun þar sem rætt var um samningsafstöðu Íslands í þremur köflum í viðræðunum um inngöngu landsins í Evrópusambandið. Kaflarnir sem fundað var um voru skattamál, samevrópskt net og umhverfismál.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, gat ekki setið fundinn þar sem hún er stödd erlendis en í bréfi til starfandi formanns nefndarinnar, Árna Páls Árnasonar, fyrir fundinn gerði hún athugasemd við það að ekki stæði til að ræða um samningsafstöðuna í sjávarútvegsmálum á fundinum í ljósi frétta í fjölmiðlum um að hún lægi fyrir.
Hún sagðist ennfremur gera ráð fyrir því að fundað yrði hið fyrsta um samningsafstöðuna í sjávarútvegsmálum í utanríkismálanefnd þingsins. Þá óskaði hún eftir því í ljósi fyrirsjáanlegra forfalla nefndarmanna á fundinum í morgun að umræðuefni hans yrði aftur til umfjöllunar í nefndinni síðar.
Frétt mbl.is: Liggur samningsafstaðan fyrir?