Fréttaskýring: Liggur samningsafstaðan fyrir?

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Ljósmynd/Europa.eu

„Ísland verður reiðubúið að upp­fylla niður­stöður viðræðnanna,“ sagði Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, á blaðamanna­fundi í Brus­sel síðastliðinn föstu­dag spurður að því hvort Íslend­ing­ar væru reiðubún­ir að opna efna­hagslög­sögu sína fyr­ir sjó­mönn­um frá Evr­ópu­sam­band­inu í viðræðum um inn­göngu í sam­bandið. Össur svaraði spurn­ing­unni þannig hvorki ját­andi né neit­andi en sagði erfitt fyr­ir hann sem stjórn­mála­mann að svara spurn­ingu sem byggðist á til­gátu.

Össur sagði enn­frem­ur að fyrst þyrfti að hefja viðræðurn­ar um sjáv­ar­út­vegs­mál­in og tak­ast á við vanda­mál­in í þeim efn­um og út úr því kæmi sam­komu­lag sem Ísland myndi fara eft­ir. Hann lagði enn­frem­ur áherslu á að sjáv­ar­út­vegs­mál­in yrðu „erfitt vanda­mál“ og að viðræður um þau myndu taka tíma. Því þyrfti að hefjast handa sem fyrst við að tak­ast á við þær. Össur tók þó fram að hann stefndi ekki að und­anþágum (e. derogati­ons) í þeim efn­um. Hins veg­ar hefði sam­bandið alltaf sýnt hug­kvæmni í því að finna klæðskerasaumaðar sér­lausn­ir fyr­ir um­sókn­ar­ríki. Þá sagði Össur fyrr á blaðamanna­fund­in­um að aðild­ar­ferlið yrði að byggj­ast á lög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins og engu öðru.

Voru um­mæli Öss­ur­ar slit­in úr sam­hengi?

Össur sagði enn­frem­ur á blaðamanna­fund­in­um að ís­lensk stjórn­völd væru reiðubú­in að leggja fram samn­ingsaf­stöðu sína í sjáv­ar­út­vegs­mál­um eins og mbl.is hef­ur áður fjallað um. Fram kom í há­deg­is­frétt­um Bylgj­unn­ar síðastliðinn mánu­dag að lík­lega hefðu orð Öss­ur­ar verið slit­in úr sam­hengi í frétt evr­ópsku frétta­veit­unn­ar Agence Europe sem mbl.is vísaði til en í frá­sögn henn­ar síðastliðinn föstu­dag kom meðal ann­ars fram að ráðherr­ann hefði sagt á blaðamanna­fund­in­um að samn­ingsafstaðan í sjáv­ar­út­vegs­mál­um væri til­bú­in.

Í frétt Bylgj­unn­ar kom jafn­framt fram að hugs­an­lega hefði í frétt Agence Europe verið átt við samn­ings­mark­miðin í álykt­un meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is sem fylgt hefði þings­álykt­un­ar­til­lög­unni um að sótt yrði um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið í júlí 2009 og lengi legið fyr­ir. Össur sagði við Bylgj­una að vinna við samn­ingsaf­stöðuna væri enn í gangi en að sú vinna væri þó til­tölu­lega langt kom­in. Hann vissi þó ekki ná­kvæm­lega hvenær henni yrði lokið.

Mynd­skeið frá fund­in­um á heimasíðu ESB

Um­mæli Öss­ur­ar á blaðamanna­fund­in­um verða þó vart skil­in öðru­vísi en svo að samn­ingsafstaðan í sjáv­ar­út­vegs­mál­um hafi þá verið til­bú­in og ekk­ert að van­búnaði að leggja hana fram. Á heimasíðu Evr­ópu­sam­bands­ins er að finna mynd­skeið frá fund­in­um þar sem hlýða má á um­mæli Öss­ur­ar en þau voru hluti af svari við fyr­ir­spurn er­lends blaðamanns um sjáv­ar­út­vegs­mál­in í tengsl­um við um­sókn Íslands og þann ár­ang­ur sem náðst hefði í þeim mála­flokki (sjá hér að neðan, spurn­ing blaðamanns­ins og síðan svar Öss­ur­ar hefst á 10:50).

„En sá ár­ang­ur sem ég vísaði til er að stöðuskýrsla Evr­ópu­sam­bands­ins er á réttri leið. Hún hef­ur þegar hafið veg­ferð sína í gegn­um stofn­an­ir Evr­ópu­sam­bands­ins. Heima á Íslandi höf­um við einnig náð veru­leg­um ár­angri. Ég á við að við erum reiðubú­in að leggja fram samn­ingsaf­stöðu okk­ar (e. „we stand rea­dy to put forth our negotiat­ing positi­on“) og við iðum í raun í skinn­inu að klóra yf­ir­borðið á vanda­mál­inu [þ.e. sjáv­ar­út­vegs­mál­un­um],“ sagði Össur í svari sínu.

Ligg­ur samn­ingsafstaðan í sjáv­ar­út­vegi fyr­ir?

Eng­inn af viðmæl­end­um Morg­un­blaðsins síðastliðinn mánu­dag kannaðist við að samn­ingsafstaðan í sjáv­ar­út­vegs­mál­um lægi fyr­ir en þar var rætt við Gunn­ar Braga Sveins­son, þing­flokks­formann Fram­sókn­ar­flokks­ins sem sæti á í ut­an­rík­is­mála­nefnd Alþing­is, Kol­bein Árna­son, formann sjáv­ar­út­vegs­hóps í samn­inga­nefnd Íslands gagn­vart Evr­ópu­sam­band­inu, og Vil­hjálm Eg­ils­son sem sit­ur í sjáv­ar­út­vegs­hópn­um. Hins veg­ar sagði Árni Þór Sig­urðsson, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is, að vinnu við samn­ingsaf­stöðuna væri „í raun lokið“ og málið hefði „svo bara þann gang sem það á að fara.“ Reynt var að ná í Össur vegna frétt­ar­inn­ar en án ár­ang­urs.

Þá sagði Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og nefnd­armaður í ut­an­rík­is­mála­nefnd Alþing­is, í sam­tali við mbl.is síðastliðinn laug­ar­dag að hún furðaði sig á þeim um­mæl­um ut­an­rík­is­ráðherra í Brus­sel að samn­ingsafstaðan lægi fyr­ir þar sem hún hefði ekki verið lögð fyr­ir ut­an­rík­is­mála­nefnd þings­ins. Össur sagði hins veg­ar í sam­tali við Bylgj­una að þegar samn­ingsafstaðan væri til­bú­in yrði hún „um­svifa­laust“ kynnt nefnd­inni.

Eft­ir stend­ur sú spurn­ing hvort samn­ingsafstaðan í sjáv­ar­út­vegs­mál­um ligg­ur fyr­ir eða ekki. Þá er einnig ósvarað hvers vegna ut­an­rík­is­ráðherra sagði á blaðamanna­fund­in­um í Brus­sel síðastliðinn föstu­dag að samn­ingsafstaðan lægi fyr­ir en sagði síðan að svo væri ekki í sam­tali við Bylgj­una um þrem­ur sól­ar­hring­um síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert