„Stjórnvöld vilja stjórna umræðunni“

Stjórnarráðið. Almenningur telur ríkisstjórnina, sveitarfélög og stofnanir leyna upplýsingum sem …
Stjórnarráðið. Almenningur telur ríkisstjórnina, sveitarfélög og stofnanir leyna upplýsingum sem varði almannahagsmuni. mbl.is/Hjörtur

Um 40 manns eru á hádegisfyrirlestri sem Jóhanna Gunnlaugsdóttir heldur í hádeginu í dag í Háskóla Íslands. Þar kemur fram að stór meirihluti almennings telur stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, leyna almenning upplýsingum.

Jóhanna segir að á Bretlandi séu svipuð viðhorf, þar treysti almenningur stjórnvöldum illa í þessum efnum.

Traust á ríkisstjórn, sveitarfélögum og stofnunum hefur nokkrum sinnum verið mælt hér á landi. Þar hefur traustið ítrekað mælst lágt og gengið illa að auka trúverðugleikann. Þessi nýlega könnun staðfestir þetta vantraust.

Stofnanir veiti síður upplýsingar ef ekki sé skylt að veita þær

Á fundinum kom fram að blaðamenn væru margir samdóma um að erfitt væri að fá upplýsingar frá stofnunum og þar væru þær síður veittar nema fyrir lægju skýrar skyldur til þess. Viðhorfið væri að veita ekki meiri upplýsingar en nauðsyn krefði.

Í umræðum kom fram að innan Stjórnarráðsins væri vilji til þess að bæta úr þessu. Rætt var um nýju upplýsingalögin og meðal annars kom fram að Norðmenn væru komnir lengra en við í þeim efnum að birta málaskrár ráðuneyta á heimasíðum. Í nýju upplýsingalögunum eru ákvæði um þessi efni og voru fundarmenn sem tjáðu sig sammála um að slíkt væri til bóta.

Fyrirlesturinn er undir yfirskriftinni: „Leyna stjórnvöld mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning?“

Fram kom að stjórnmálamenn og embættismenn létu oft hjá líða að taka saman upplýsingar eða færa til bókar upplýsingar á mikilvægum fundum. Í þessu samhengi var vísað til fundar þáverandi viðskiptaráðherra með Alistair Darling 2. september 2008 í Lundúnum.

Einnig var nefnt að í september og október 2009 hafi utanríkisráðherra átt fund með þremur þjóðhöfðingjum og 12 til 14 utanríkisráðherrum ESB-ríkja. Auk fundar með Dominique Strauss-Kan, þáverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem rætt var um Icesave-málið.

Fram hafi komið í blaðagreinum og útvarpsfréttum, þegar leitað var eftir svörum, að utanríkisráðherra hefði talið að þessir fundir hefðu farið fram í trúnaði og að ekki hefðu verið skrifaðar fundargerðir.

Einnig voru nefnd dæmi um tölvupósta fyrrverandi fjármálaráðherra tengt máli þar sem því hefði verið borið við að um einkatölvupósta væri að ræða varðandi fjárútlát hins opinbera til stofnunar á NA-landi.

Stjórnvöld vilji matreiða upplýsingar

Fram kom það viðhorf að stjórnvöld vildu gjarnan matreiða upplýsingar til fjölmiðla og þannig stjórna umræðunni. Fleiri tóku undir í þessum efnum. Þetta eigi við víðar en á Íslandi, en að unnið sé að úrbótum í þessum efnum þegar í einhverjum nágrannalöndum.

Fram kom að ritun minnisblaða frá fundum fari dvínandi og að slíkt hafi breyst í þá veru þegar starfsfólki hafi fækkað og auknar kröfur hafi verið settar á embættismenn og stjórnmálamenn að færa niður punkta á minnisblöð.

Þá var rætt um að almenningur og fjölmiðlar væru áhugasamari um að fá opinberar upplýsingar og vildu hafa hraðan og öruggan aðgang að þeim, en að þeir sem hefðu yfir upplýsingunum að ráða væru vart búnir að aðlaga sig að þessum veruleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert