Töpuðu 267,2 milljörðum króna

Ríkinu var gert að greiða Landsbankanum mismuninn milli sölu- og …
Ríkinu var gert að greiða Landsbankanum mismuninn milli sölu- og raunvirði Sparisjóðsins í Keflavík mbl.is/Víkurfréttir

Seðlabankinn og ríkissjóður töpuðu 267,2 milljörðum króna á lánum til íslenskra banka við hrunið, en lánin hafa síðan verið afskrifuð. Tapið olli Seðlabankanum sem kunnugt er gríðarlegu tjóni.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, en þar er fjallað um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Skýrslan var unnin að beiðni forsætisnefndar Alþingis, að frumkvæði Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að ríkið lagði nýju bönkunum, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum samtals til 138,2 milljarða króna hlutafé. Að auki veitti ríkið þeim víkjandi lán upp á samtals 57,3 milljarða króna.
Á móti lánunum standa kröfur í þrotabú banka og fjármálafyrirtækja auk ýmissa annarra krafna. Að mati Ríkisendurskoðunar er of snemmt að meta hve mikið af þeim mun að lokum endurheimtast.

Ríkið er bakábyrgt fyrir 96,7 milljarða króna innlánsskuldbindingum, sem Fjármálaeftirlitið fól Arion banka að taka yfir af SPRON, sem þá var kominn í þrot.

Sama ár fól FME Íslandsbanka að taka yfir innlánsskuldbindingar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. þegar sá síðarnefndi féll. Ríkið var upphaflega bakábyrgt vegna þessa en sú ábyrgð er ekki lengur fyrir hendi.

Kötturinn í sekknum

Ríkið tapaði 135 milljónum króna við sölu Byrs hf. til Íslandsbanka.

Sama ár stofnaði ríkið sparisjóðinn SpKef sem keypti eignir Sparisjóðsins í Keflavík og tók yfir hluta af skuldum hans samkvæmt ákvörðun FME. Eftir að í ljós kom að virði eignanna var minna en upphaflega var áætlað samdi ríkið, að tilhlutan FME, við nýja Landsbankann um yfirtöku þeirra og skuldanna. Skyldi ríkið greiða bankanum mismuninn þarna á milli. Nýlegt eignamat leiddi í ljós að heildarkostnaður ríkisins vegna Sparisjóðsins í Keflavík nemur 25 milljörðum króna. 

Ríkið lagði einnig stofnfé í fimm minni sparisjóði á árinu 2010 og nam verðmæti eignarhluta ríkisins í þeim rúmlega 1,7 milljörðum króna í árslok 2011.

Ríkissjóður telur kröfur upp á 52 milljarða gagnvart VBS fjárfestingabanka hf., Aska Capital hf. og Saga Capital hf. vera tapaðar, en öll þessi félög hafa verið tekin til slitameðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert