4.739 fyrirtæki gjaldþrota frá hruni

Mörg fyrirtæki í byggingagreinum hafa orðið gjaldþrota á síðustu árum.
Mörg fyrirtæki í byggingagreinum hafa orðið gjaldþrota á síðustu árum. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Frá ársbyrjun 2008 hafa 4.739 fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota. Gjaldþrotin voru flest í fyrra þegar 1.578 fyrirtæki urðu gjaldþrota. Allt bendir til að gjaldþrotin verði færri í ár.

Árið 2008 urðu að meðaltali 62 fyrirtæki gjaldþrota á mánuði. Árið 2009 voru þau 75. Árið 2010 voru þau 82 og í fyrra varð 131 fyrirtæki gjaldþrota að jafnaði í mánuði eða meira en fjögur á dag. Það sem af er þessu ári hafa um 100 fyrirtæki orðið gjaldþrota á mánuði.

Gjaldþrotunum er því að fækka, en þau eru enn mjög mörg og verða líklega fleiri í ár en þau voru 2010.

Flest fyrirtæki sem hafa orðið gjaldþrota eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Þar á eftir kemur heild- og smásöluverslun. Mörg fyrirtæki í fjármálastarfsemi hafa orðið gjaldþrota, sem og fyrirtæki í fasteignaviðskiptum.

Þótt gjaldþrotin séu mörg eru nýskráð fyrirtæki enn fleiri. Fyrirtækjum í landinu er því ekki að fækka heldur fjölga. Fyrirtækjum í byggingageira hefur t.d. fjölgað. Ástæðan er sú að þegar fólk missir vinnu sína reynir það að skapa sér atvinnu m.a. með því að stofna eigið fyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert