„Ég veit að þetta kemur illa við marga, sumir kannski búnir að fylgjast með frá 1995 þannig að þetta er ákveðið áfall. En einhvern tíma verður allt gott að enda, eins og lífið,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, um endalok Leiðarljóss á skjánum.
Ríkisútvarpið sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að Leiðarljós, sem hefur verið á dagskrá RÚV frá 1995, hverfi af skjánum frá og með þriðjudeginum 3. júlí næstkomandi. Spurð hvers vegna sú ákvörðun hafi verið tekin segir Sigrún: „Þetta er í sjálfu sér ekki ákvörðun vegna þess að við fáum einfaldlega ekki meira efni. Þetta er því aðeins endapunktur.“
Borist hafa ábendingar til mbl.is um að mikið hefði verið hringt í Ríkisútvarpið og kvartað yfir því að Leiðarljós sé að lokum komið. Sigrún segist þó aðeins hafa fengið eitt tölvubréf þar sem kvartað hafi verið og því hafi hún svarað. Hún bætir því hins vegar við að hún fái töluvert margar kvartanir vegna Evrópumótsins í knattspyrnu. „Sérstaklega þegar leikirnir fara í framlengingu.“
Í tilkynningunni frá Ríkisútvarpinu segir að dreifingaraðilar þáttanna hafi ekki séð sér hag í að endurnýja samninga. Spurð hvort þetta þýði að Ríkisútvarpið hafi ekki boðið nægilega hátt segir Sigrún að málið snúist ekki um verð. „Þeir eru í fyrsta lagi hættir að framleiða þessa þætti því þeir voru farnir að missa áhorf alls staðar. Og þeir þættir sem þegar hafa verið framleiddir innihalda tónlist sem þeir þurfa að breyta vegna þess að þeir eiga ekki réttinn.“
Þá segir Sigrún að dreifingaraðilar Leiðarljóss hafi sýnt mikla tregðu undanfarin ár í samningaviðræðum um þættina og nú vilja þeir einfaldlega ekki meira samstarf. „Þetta er eiginlega bara búin saga. Leiðarljós er komið á endastöð.“
Þegar sýningum lýkur eru níu ár eftir af efni til. Fyrir þá sem bíða spenntir eftir að vita hver örlög fólksins í Leiðarljósi verða hyggst Ríkisútvarpið setja inn á vefsvæði sitt úrdrátt um hvað gerist á þessum níu árum. Ekki verður um handrit að þáttunum að ræða heldur greint stuttlega frá atburðarrásinni.
Ákveðið hefur verið að þáttaröðin um Herstöðvalíf (e. Army wifes) taki við af Leiðarljósi til að byrja með. En hvað svo?
„Það er auðvitað ákveðin hætta fólgin í því að hafa svona langar þáttaraðir og fólk fer að lifa sig inn í þær. Nú er þessari lokið og við ætlum að læra af reynslunni og vera með vandaðar og styttri þáttaraðir. Við byrjum með nýja þáttaröð í kvöld sem hefur orðið mjög vinsæl víða. Fólk hefur því eitthvað að hlakka til. Hún verður hins vegar betur kynnt síðar, þegar búið er að hnýta alla lausa enda,“ segir Sigrún Stefánsdóttir.