Óttast ekki refsiheimildir

Að mati Sigurgeirs Þorgeirssonar, skrifstofustjóra sjávarútvegsráðuneytisins, er ólíklegt að ESB beiti fyrirhuguðum refsiheimildum á Íslendinga í makríldeilunni. Skýr ákvæði EES-samningsins komi í veg fyrir að hægt sé að beita heimildunum gegn Íslendingum.

Evrópuþingið og forsætisnefnd Evrópusambandsins náðu í gær samkomulagi um að beita þær þjóðir sem stunda ofveiði á sameiginlegum fiskistofnum refsiaðgerðum, meðal annars í formi löndunarbanns á allar fiskafurðir. ,,Ég tel ólíklegt að ESB muni beita harðari refsingum en alþjóðlegar skuldbindingar þeirra segja til um,“ segir Sigurgeir.

Sjávarútvegsráðherrar ríkja við Norður-Atlantshaf halda árlegan fund sinn í Reykjavík 3.-4. júlí. Gert er ráð fyrir því að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sæki fundinn, að sögn Sigurgeirs. Aðild að þessum samráðsfundum eiga Kanada, Grænland, Ísland, Færeyjar, Noregur, Rússland og Evrópusambandið.

Á dagskrá fundarins er annars vegar hvernig megi stöðva brottkast fisks og hins vegar umhverfisvottun sjávarafurða. Makríldeilan er ekki á dagskrá en líklegt má telja að hana beri á góma þar sem ráðherrar Íslands, Færeyja, Noregs og ESB verða saman komnir.

Líklegt þykir að verð á makrílafurðum lækki í ár frá því í fyrra. Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, segir greinilega þyngra hljóð í kaupendum nú en í fyrra. Mörg skip eru byrjuð makrílveiðar og hafa einkum verið austur af Hornafirði í vikunni. Í landi skapast mörg störf. Fjölgað verður t.d. um 280 manns hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og HB Granda í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert