Borgarráð hefur samþykkt að á öllum starfsstöðvum borgarinnar verði pappi og pappír flokkaður til endurvinnslu.
Flokkun til endurvinnslu hefur aukist verulega hjá starfstöðvum borgarinnar á undanförnum árum. Margir skólar og leikskólar hafa tekið upp umhverfisstjórnun, Grænfána, og margar starfstöðvar taka nú þátt í Grænum skrefum þar sem gerð er krafa um flokkun úrgangs til endurvinnslu. Þrátt fyrir það eru enn starfstöðvar hjá borginni sem ekki flokka.
Tillagan sem Jón Gnarr borgarstjóri lagði fram gerir ráð fyrir að frá og með 1. október verði allar starfstöðvar komnar með ílát fyrir endurvinnsluefni. Íslenska gámafélagið mun sjá um sorphirðu hjá starfstöðvum borgarinnar og býður tunnu fyrir blöndu endurvinnsluefna, svokallaða græna tunnu þar sem má setja fimm flokka af pappírsefnum auk málms og plasts.