Ber enga ábyrgð á mannorðstjóni Egils

Egill Einarsson.
Egill Einarsson. mbl.is/Kristinn

„Niðurstaða ríkissaksóknara um að fella málið niður þýðir hvorki að kæra skjólstæðings míns hafi verið röng né að ósekju,“ segir Guðjón Ólafur Jónsson hæstaréttarlögmaður í athugasemdum sem hann hefur sent frá sér vegna yfirlýsingar Egils Einarssonar. Hann hefur gætt hagsmuna tveggja stúlkna sem kærðu Egil fyrir kynferðisbrot.

Mál annarrar stúlkunnar var nýverið fellt niður en hún var nýorðin 18 ára þegar þeir atburðir áttu sér stað sem leiddu til kærunnar. Guðjón segir að í ljósi síðustu yfirlýsingar Egilss sé rétt að taka eftirfarandi fram:

„1. Skjólstæðingur minn hvarf í miklum flýti af heimili kærða umrædda nótt. Var hún þá klædd í sokkabuxur af unnustu kærða, en skildi nærbuxur sínar og sokkabuxur þar eftir.

2. Skjólstæðingur minn hafði þá þegar samband við tvær vinkonur sínar þar sem hún hafði leitað skjóls við heimili annarrar í nágrenni við heimili kærða. Kvað hún kærða hafa nauðgað sér. Er staðfest með framburði vinkvennanna og leigubílstjóra, sem ók þeim þremur rakleitt að  Neyðarmóttöku, að skjólstæðingur minn hafi þá verið hágrátandi og í miklu tilfinningalegu uppnámi. 

3. Á neyðarmóttöku var túrtappi fjarlægður úr leggöngum skjólstæðings míns. Þar fundust við skoðun tvær örfínar rifur við leggangaop og ein við endaþarmsop, sem að mati skjólstæðings míns styðja frásögn hennar um að kærði hafi haft við hana samfarir um leggöng og endaþarm. Ekki varð hins vegar ráðið hvort rifur við leggangaop hefðu komið við samfarir með eða án vilja skjólstæðings míns. Aðrar mögulegar skýringar gátu einnig verið á rifu við endaþarmsop. Í niðurstöðu ríkissaksóknara er í engu vikið að marblettum á handleggjum skjólstæðings míns sem hún kvað vera af völdum kærða og getið er um í skýrslu Neyðarmóttöku.

4. Skjólstæðingur minn hefur frá greindum atburði verið til meðferðar hjá sálfræðingi, sem kveður hana bera öll einkenni, sem þekkt eru hjá þolendum kynferðisafbrota. Ríkissaksóknari aflaði engra gagna þar að lútandi og virðist með öllu hafa litið framhjá sálrænum einkennum skjólstæðings míns.

Niðurstaða ríkissaksóknara um að fella málið niður þýðir hvorki að kæra skjólstæðings míns hafi verið röng né að ósekju. Hún felur það hins vegar í sér að þrátt fyrir ofangreint telur ríkissaksóknari, gegn neitun kærða og unnustu hans, það sem fram er komið í málinu ekki vera nægilegt eða líklegt til sakfellis. Er það í samræmi við þá meginreglu íslensks réttarfars að allur vafi skuli virtur sakborningi í hag.

Þrátt fyrir niðurstöðu ríkissaksóknara hlýtur það að vera kærða umhugsunarefni hvers vegna 18 ára stúlka kýs að leita beint á Neyðarmóttöku um miðja nótt eftir samskipti sín við hann og kæra hann síðar fyrir kynferðisbrot. Vera kann að mannorð kærða hafi beðið eitthvert tjón vegna máls þessa, óháð því hversu gott það kann að hafa verið fyrir. Í þeim efnum verður kærði þó fyrst og fremst að líta í eigin barm. Getur umbjóðandi minn enga ábyrgð borið á því ætlaða mannorðstjóni.“

Í yfirlýsingu sem Egill sendi frá sér í síðustu viku sagði hann mannorð sitt hafa beðið mikinn skaða. „Þetta mál hefur verið þungbært fyrir mig, unnustu mína og okkar nánustu. Þrátt fyrir sakleysi okkar hefur mannorð okkar beggja beðið alvarlegan skaða. Þar fyrir utan fylgir því nær óbærileg vanlíðan að verða fyrir ásökun um svo alvarlegan glæp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert