Með hjartasár sem hættir ekki að blæða

Banaslysið varð í Geirsgötu í ágúst í fyrra.
Banaslysið varð í Geirsgötu í ágúst í fyrra. Mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ríkissaksóknari fer fram á að 18 ára piltur, sem valdur varð að dauða Eyþórs Darra Róbertssonar í bílslysi í fyrra, verði dæmdur í fangelsi og sviptur ökuleyfi ævilangt. Aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Slysið sem um ræðir varð í Geirsgötu í ágúst 2011, þar sem bíll með þremur ungum mönnum fór utan í kantstein, kastaðist þaðan á grjót og endaði á húsvegg með þeim afleiðingum að farþegi í aftursæti lést. Ökumaðurinn er ákærður fyrir umferðarlagabrot, hættubrot og fyrir manndráp af gáleysi.

Hálflamaður eftir dauða vinar síns

Saksóknari, Hulda María Stefánsdóttir, fór í morgun fram á að hann yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar, rúmar 700 þúsund krónur. Að auki fara foreldrar Eyþórs Darra fram á miskabætur, samtals 3 milljónir króna. Vísaði saksóknari m.a. í dómafordæmi frá árinu 2008, en þá var ungur maður dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til fjögurra ára ökuleyfissviptingar vegna slyss þar sem tvö létu lífið.

Fram kom að fyrir dóminum að foreldrar Eyþórs Darra hafi ekki unnið úr áfallinu sem dauði sonar þeirra var og muni líklega aldrei gera það. Móðir hans hafi lýst líðan sinni undanfarið tæpt ár þannig að hún sé með stórt sár á hjartanu sem hætti ekki að blæða úr. Verjandi  benti á að slysið hefði einnig verið hinum ákærða afar þungbært. Þeir Eyþór Darri voru bestu vinir og æskuvinir. Sagði verjandi hans, Brynjar Níelson, að pilturinn væri enn hálflamaður yfir atburðinum og gæti varla talað við nokkurn mann.

Játar að hann beri ábyrgðina

Af þessum sökum, og í ljósi ungs aldurs og þess að hann er með hreinan feril, fór verjandi fram á vægustu refsingu, að fangelsisdómur yrði skilorðsbundinn að öllu leyti og ökuleyfissvipting ekki lengri en þrjú ár. Ungi maðurinn játar sök að mestu leyti, hann viðurkennir að hafa ekið of hratt, án nægilegrar aðgátar, og beri því ábyrgð á dauða vinar síns. Ágreiningur er hinsvegar um hraðann, en saksóknari vill meina að pilturinn hafi ekið á ofsahraða, 119 km á klukkustund þar sem hámarkshraði er 50 km. Sjálfur heldur hann því fram að bíllinn hafi ekki farið hraðar en 70 km.

Saksóknari sagði þegar hún flutti mál sitt að framburður piltsins væri ótrúverðugur enda mætti ráða af gögnum málsins að hraðinn hefði verið miklu meiri. Gjörsamlega útilokað væri að slysið hafi orðið á 70 km hraða, og vísaði hún m.a. í rannsóknir sem gerðar voru á slysinu og sagt var frá á MBL.IS fyrr í vikunni. Brynjar Níelsson gagnrýndi að vísað væri til mælinga lögreglu sem verjandi hefði ekki geta átt neina aðkomu að, né fengið tækifæri til að gera athugasemdir við. Benti hann á að útreikningarnir á hraða bílsins byggðu á ákveðnum forsendum lögreglu, og ef þær forsendur væru rangar væru útreikningarnir það líka. 

Saksóknari benti á að auk formlegrar rannsóknar á hraðanum hefðu 13 vitni borið að hraði bílsins hefði verið of mikill og meiri en hraði annarra bíla í kring. Benti hún auk þess á að sá mikli fjöldi fólks sem varð vitni að slysinu undirstriki hættuna sem kom upp, þar sem ekið hafi verið á miklum hraða innanbæjar innan um gangandi vegfarendur. Am.k. eitt vitni sagðist hafa óttast um öryggi sitt þegar bíllinn kom aðvífandi.

Dómur verður kveðinn upp í málinu á næstunni.

Eyþór Darri Róbertsson
Eyþór Darri Róbertsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka