Niðurstöður í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur við Ingólfstorg og í Kvosinni voru birtar í dag. Fyrstu verðlaun í samkeppninni hljóta ASK arkitektar en höfundar vinningstillögunnar eru arkitektarnir Þorsteinn Helgason og Gunnar Örn Sigurðsson.
Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir að um sé að ræða metnaðarfulla tillögu sem taki tillit til sögu Kvosarinnar en sýni um leið áhugaverða þróunarmöguleika. „Styrkur hennar felst meðal annars í skýrri og heildrænni sýn á viðkvæmu og mikilvægu miðborgarsvæði. Hún sýnir markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum.“
Tillagan skiptir uppbyggingunni í þrjá áfanga þar sem hver áfangi hefur skýrt hlutverk. Í Vallarstræti verður fjölbreytt verslunar- og þjónustuhúsnæði, sem dómnefnd segir að styrkja muni þjónustu í hjarta miðborgarinnar, auðga mannlíf og skapa áhugaverða upplifun fyrir vegfarendur. „Hrynjandi og form nýbygginga fellur almennt vel að nálægri byggð. Samkomusalur við Thorvaldsensstræti 2 er endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Innangengt verður í veitingasal hótelsins.”
Öllum Samkeppnistillögunum hefur verið stillt upp til sýningar sem var opnuð um leið og tilkynnt var um verðlaunahafa.
Sýningin er til húsa að Thorvaldsensstræti 6, Landssímahúsinu og stendur yfir frá 29. júní til 29. júlí og verður hún opin daglega frá kl. 14.00 – 18.00.