Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Guðmundur Magnússon, segir að bæði stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmáli Evrópu kveði á um að kosningar skuli vera leynilegar. Telur ÖBÍ að túlkun innanríkisráðuneytisins á rétti fatlaðs fólks til að kjósa ranga.
„Ísland hefur lengi státað sig af því að vera eitt elsta og rótgrónasta lýðræðisríki í heimi. Lýðræði verður ekki virkt án mannréttindaverndar, sem er að sama skapi grundvöllur lýðræðis. Mannréttindi eru samofin hugtök og grundvöllur okkar þjóðfélagsskipunar. Ríki skulu tryggja að allar kosningar verði frjálsar og leynilegar.
Á morgun mun íslenska þjóðin kjósa sér forseta. Hin síðustu misseri hafa komið upp æ fleiri dæmi um það hvernig íslenska ríkinu hefur mistekist að tryggja að framkvæmd kosninganna sé með leynilegum hætti. Dæmin einfaldlega sanna að allir einstaklingar sitja ekki við sama borð. Blindum og hreyfihömluðum er ekki heimilt að velja sér aðstoðarmann, heldur verða þeir að leggja traust sitt á kjörstjórnarmenn á hverjum stað sem veita þeim aðstoð við kosningarnar. Slíkt er ekki leynileg kosning,“ segir í yfirlýsingu frá formanni ÖBÍ.
„Í gær kom yfirlýsing frá Innanríkisráðherra. Í henni viðurkennir ráðherra að nauðsynlegar lagabreytingar hafi ekki verið gerðar til þess að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks þannig að það samræmist alþjóðaskuldbindingum þeim sem hér að ofan voru nefndar.
Ein af rökunum fyrir því að ráðuneytið ætli ekki að grípa til tafarlausra aðgerða til að tryggja umrædd mannréttindi eru þau að ráðuneytið telur sig ekki hafa heimild til þess að grípa til stjórnvaldsaðgerða sem geta verið andstæð skýrum ákvæðum laga. Slíkt geti valdið ógildingu kosninganna.
ÖBÍ telur þetta vera ranga nálgun enda er ljóst að framkvæmdin er ekki í samræmi við mannréttindaákvæði. Mannréttindi skulu ávallt vera æðri öllum lagareglum,“ segir ennfremur í yfirlýsingu ÖBÍ.