Kreppunni ekki lokið þrátt fyrir hagvöxt

Ragnar Árnason hagfræðiprófessor
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kreppunni er ekki lokið fyrr en landsframleiðslan er orðin sú sama og hún var árið 2008, áður en krepp-an skall á, þetta segir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

„Ef maður fer niður í holu þá er maður niðri í holunni þangað til að maður er kominn upp úr henni,“ segir Ragnar sem gagnrýnir það sjónarmið að kreppunni sé lokið einfaldlega vegna þess að hagvöxtur hafi mælst hér á landi í nokkra ársfjórðunga. Að sögn hans þá gerir þjóðhagspá Hagstofunnar ráð fyrir tæplega 3% hagvexti á þessu ári og um 2,5% hagvexti á næstu árum og gangi það eftir þá muni landsframleiðsla ársins 2008 nást aftur árið 2014, en þá hafi kreppan staðið yfir í 5-6 ár.

Ragnar segir að það viðmið, um að kreppu sé lokið þegar hagvöxtur hefur mælst í nokkra ársfjórðunga, sé stundum notað yfir stuttar kreppur sem tiltölulega reglulega eiga sér stað en að það eigi illa við um langvarandi kreppur. „Sannleikurinn er sá að flestar kreppur, og þær koma nú reglulega, endast ekki nema einn til þrjá ársfjórðunga og svo ef síðan verður hagvöxtur í 2-3 ársfjórðunga eftir það er hagkerfið komið upp úr holunni,“ segir Ragnar og bætir við: „En þegar um er að ræða svona djúpa kreppu, eins og við erum í og margar aðrar þjóðir, þó svo að þær hafi flestar ekki sokkið eins djúpt og við, þá er ekki hægt að nota þetta viðmið. Skynsamlega viðmiðið er að kreppunni sé lokið þegar að maður er kominn upp úr lægðinni.“

Að sögn Ragnars eru spár um hagvöxt hér á landi á næstu árum háðar því að efnahagsástandið í nágranna-löndunum og þeim ríkjum sem Ís-lendingar stunda viðskipti við verði sæmilegt eða a.m.k. ekki verra en það hefur verið í fyrra og árið þar áður. „Mjög margir tala um það að þessi heimskreppa muni halda áfram eitthvað lengur,“ segir Ragnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert