Íslenska landsliðið er efst í sínum riðli á Evrópumeistaramóti landsliða í bréfskák sem hófst 15. júlí 2011. Teflt er á tíu borðum og keppir íslenska liðið við margar af sterkustu bréfskákþjóðum Evrópu.
Á vef Skáksambands Íslands, skak.is, segir að helstu keppinautar Íslands séu Þjóðverjar og Slóvakar, sem hömpuðu Evrópumeistaratitlinum í sjöundu Evrópukeppninni. Þar á undan urðu Þjóðverjar Evrópumeistarar. „Þetta eru því sterkir andstæðingar, en til viðbótar má geta þess að tæpur helmingur þjóðanna í riðlinum teflir í úrslitum áttundu Evrópukeppninnar sem hófst nú í febrúar. Tvö efstu liðin komast í úrslit og verða líkurnar á því að íslenska liðið komist þangað að teljast allgóðar.“