Aukin aðsókn með bættum samgöngum

Skrúðganga keppenda er fastur liður á Shellmótinu
Skrúðganga keppenda er fastur liður á Shellmótinu mbl.is

Bættar samgöngur til Vestmannaeyja hafa aukið aðsókn að hinum ýmsu viðburðum sem þar fara fram yfir sumartímann. ÍBV stendur fyrir tveimur stórum knattspyrnumótum á sumri hverju auk Þjóðhátíðar. Framkvæmdastjóri félagsins segir að bættar samgöngur hafi mjög jákvæð áhrif á aðsókn á áðurnefnda viðburði.

 13.400 farþegar með Herjólfi á 6 dögum

Á laugardag lauk Shellmótinu sem er haldið ár hvert fyrir fótboltastráka í 6. flokki karla. Að sögn Tryggva Más Sæmundssonar framkvæmdastjóra ÍBV var áætlað að allt að 4.000 manns kæmu til Vestmannaeyja í kringum mótið. Hinsvegar sýna tölur frá Herjólfi að samtals 13.400 farþegar voru fluttir til og frá Eyjum á milli 26. júní og 1. júlí auk 2.500 bíla og annarra farartækja. ÍBV stendur einnig fyrir Pæjumótinu sem haldið var fyrr í júnímánuði. „Tölur frá Herjólfi og Flugfélaginu Erni segja að 4.500 hafi verið fluttir milli lands og Eyja þá helgi þó auðvitað hafi ekki allir verið að koma út af Pæjumótinu. Þumalputtareglan hér áður var að einn aðstandandi fylgdi hverjum þátttakanda á þessi mót en nú er ljóst að við þurfum að endurskoða það viðmið. Við rekjum fjölgunina  til betri samgangna.“

Öll tjaldstæði og allt gistipláss var fullbókað á meðan á mótunum stóð. Að sögn Tryggva Más gengur vel að taka á móti þessum aukna fjölda en þó hefur fjölgun bíla skapað ákveðin vandamál. „Bílunum hefur einnig fjölgað, nú standa yfir framkvæmdir við stúkubyggingu við Hásteinsvöll og því fækkaði bílastæðum við svæðið töluvert. Það þarf að finna bót á bílastæðavandræðum. Einnig þarf að tryggja umferðaröryggi enda liggur stofnbraut norðan við vellina og það er ákveðið vandamál sem við þurfum að leysa. Annars gekk þetta mjög vel enda lék veðrið við okkur.“

 Meðfram mótunum í ár hafa mótshaldarar staðið fyrir könnun meðal gesta. „Með því ætlum við að gefa okkur betri hugmynd um hvað má betur fara hjá okkur og auk þess komast að því hvað fólk skilur eftir sig í peningum með komunni hingað. Við munum einnig gera slíka könnun á Þjóðhátíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert