Hvalafriðun í S-Atlantshafi hafnað

Ísland greiddi atkvæði gegn tillögu nokkurra Suður-Ameríkuríkja á ársfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins um stofnun griðasvæðis fyrir hvali í Suður-Atlantshafi. Tillagan náði ekki fram að ganga.

38 þjóðir studdu tillöguna en 21 þjóð greiddi atkvæði gegn henni. 75% aðildarþjóða hvalveiðiráðsins þurfa að greiða atkvæði með tillögum í ráðinu til að þær öðlist gildi. Tillagan var því felld.

Fundur hvalveiðiráðsins fer fram í Panama. Argentína, Brasilía, Suður Afríka og Uruguay lögðu tillöguna fram í fyrra. Þá gengu íslenska sendinefndin ásamt fulltrúum Noregs og Japans af fundi og komu þannig í veg fyrir að fundurinn væri ályktunarhæfur og hægt væri að greiða atkvæði. Tillagan var því aftur tekin til umræðu á fundinum í Panama.

Japan var í forystu fyrir ríki sem beittu sér gegn tillögunni. Haft er eftir Jose Truda Palazzo, fulltrúa Brasilíu, að Japan væri ekki tilbúið til að gefa tommu eftir í þessu máli og þess vegna hefði tillagan ekki náð fram að ganga. Hann sakaði Japan einnig um að hafa keypt sér stuðning smáríkja eins og Nauru og Tuvalu.

Japan hefur lagt áherslu á að hvalveiðar sé mikilvægur hluti menningar þeirra.

Í frétt AFP um niðurstöðu fundarins í Panama segir að Noregur og Ísland séu einu þjóðirnar sem hafi krafist þess að mega veiða hvali í sinni lögsögu í hagnaðarskyni.

Kína, Rússland og S-Kórea voru á meðal þjóða sem greiddu atkvæði gegn tillögu um friðun hvala í S-Atlantshafi.

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert