Miklar framfarir orðið í ökunáminu

Í dag prófa ökunemar m.a.veltibíla til að upplifa hvernig það …
Í dag prófa ökunemar m.a.veltibíla til að upplifa hvernig það er að missa stjórn á bíl. Mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Greinlegur munur er á aksturslagi ungra ökumanna sem nýta tækifærið til æfingaaksturs ásamt foreldrum sínum áður en þeir fá bílprófið og þeim sem ekki gera það, að mati ökukennara. Meirihluti ökunema stunda æfingaakstur og slysum ungra ökumanna hefur farið fækkandi.

Greinilegt hverjir æfa sig og hverjir ekki

„Maður sér það vara á krökkum sem hafa verið í æfingaakstri hvað þau eru allt önnur en þau sem ekki hafa gert það,” segir Jón Haukur Edwald, formaður stjórnar Ökukennarafélags Íslands. Æfingaakstur er hugsaður sem viðbót við ökunám með kennara, til að ökuneminn geti byggt upp reynslu og færni í akstri undir handleiðslu foreldra eða einhvers nákomins. Æfingaaksturinn má stunda í 12 mánuði fyrir 17 ára afmælisdaginn en skilyrðið er að leiðbeinandinn hafi náð 24 ára aldri, verið með ökuleyfi í a.m.k. 5 ár og ekki brotið umferðarlög í 12 mánuði.

Á MBL.IS var í gær rætt við Gylfa Björgvin Guðmundsson, ungan mann sem lenti í bilslysi þegar hann var nýkominn með bílprófið, og móður hans, Gróu Hreinsdóttur, sem vakti sérstaklega máls á æfingaakstrinum og mikilvægi hans til að foreldrar kynnist því hvernig bílstjórar börnin þeirra eru áður en þau fari ein út í umferðina. „Mér finnst þetta ofboðslega stórt og jákvætt skref  í því að undirbúa unga ökumenn, að gefa þeim tækifæri til að keyra með sínu fólki,” sagði Gróa.

Foreldrarnir verða rólegri

Að sögn Jóns Hauks heyrir það til undantekninga að ökunemar nýti æfingaaksturinn ekkert, en hinsvegar geri þeir það í mismiklum mæli. Algengt sé að þeir æfi sig mikið að keyra til að byrja með og svo aftur síðustu vikurnar fyrir ökuprófið. „Það er verulegur meirihluti sem nýtir sér þetta og það er að skila sér. Maður finnur það alveg þegar krakkarnir koma til baka eftir æfingaaksturinn, þá sér maður vissulega muninn á þeim.”

„Annar stór þáttur er sá að foreldrar verða meira inni í ökunáminu og átta sig betur á því hvað barnið þeirra er að fara út í. Þetta verður meiri samvinna og maður heyrir það stundum frá þeim að þau verða rólegri á eftir þegar krakkarnir eru að fara fyrstu ferðirnar ein og það kemur sér vel fyrir krakkana líka því þá er auðveldara að fá lánaðan bílinn. Þótt maður verði aldrei rólegri sem foreldri með barn í umferðinni.”

Valda færri slysum en áður

Jón Haukur segir að ökunám á Íslandi hafi tekið miklum framförum undanfarin 20 ár og árangurinn leyni sér því dregið hafi marktækt úr hlutdeild ungra ökumanna í umferðarslysum. Þar vegi æfingaaksturinn þungt en líka innleiðing verklegra kennslustunda þar sem lögð er áhersla á að ökuneminn upplifi hvernig það er að missa stjórn á bíl, með því m.a. að fara í skrikvagn sem líkir eftir akstri í hálku og í veltibíl og beltasleða.

„Með þessu er verið að kveikja á hugsuninni um hvað getur gerst og hvað það er mikilvægt að sýna fyrirhyggju því þegar þú ert búinn að missa stjórn á bíl, þá geturðu ekkert gert. Þau fá að upplifa þessa krafta í öruggu umhverfi, þannig að þau þurfi ekki að fara út í umferðina og læra þetta þar með dýrkeyptri reynslu.”

Ökunám á Íslandi hefur tekið miklum framförum undanfari ár.
Ökunám á Íslandi hefur tekið miklum framförum undanfari ár. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert